Íslenski boltinn

Katie Cousins í Þrótt eftir að Valur taldi hana of dýra

Sindri Sverrisson skrifar
Katie Cousins er öllum hnútum kunnug í Laugardalnum eftir að hafa spilað þar með Þrótti.
Katie Cousins er öllum hnútum kunnug í Laugardalnum eftir að hafa spilað þar með Þrótti. VÍSIR/VILHELM

Katie Cousins, einn besti leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta undanfarin ár, hefur samið um að snúa aftur til Þróttar og spila með liðinu á komandi leiktíð.

Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur Katie skrifað undir samning við Þrótt sem gildir til næstu tveggja ára, með uppsagnarákvæði sem gildir í lok þessa árs.

Katie var í lykilhlutverki hjá Val í fyrra þegar liðið varð bikarmeistari og hafnaði í 2. sæti Bestu deildarinnar. Fótbolti.net segir að forráðamenn Vals hafi reynt að semja við Katie að nýju en það hafi ekki tekist.

Félagaskiptasérfræðingurinn Orri Rafn Sigurðarson greindi fyrstur frá brotthvarfi Katie á Twitter og sagði stjórn Vals hafa talið hana of dýra. 

Athygli vekur að samkvæmt skrifum Orra voru nýir þjálfarar Vals, Kristján Guðmundsson og Matthías Guðmundsson, ekki hafðir með í ráðum. Hann hefur nú leiðrétt það og skrifaði: „Þjálfararnir virðast hafa vitað af þessu eftir allt saman. Valur lét Katie bíða í næstum því mánuð eftir að klára málin eftir hún samþykkti að koma aftur til Vals þrátt fyrir að hafa tilboð frá Portúgal. Degi fyrir lok gluggans fær hún að vita að Valur ætli ekki að endursemja.“

Katie, sem er 28 ára gömul, er væntanleg til landsins og mun þá snúa aftur í Laugardalinn þar sem hún lék þegar hún kom fyrst til Íslands. Hún skoraði sjö mörk í 17 deildarleikjum á fyrstu leiktíð sinni með Þrótti í efstu deild, árið 2021, og lék einnig lykilhlutverk með liðinu árið 2023 áður en hún skipti svo yfir í Val fyrir síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×