Þetta staðfesti Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari liðsins, í viðtali við Fótbolti.net. Theodór Elmar Bjarnason var fyrirliði á síðustu leiktíð en hann lagði skóna á hilluna að leiktíðinni lokinni og er nú aðstoðarþjálfari liðsins.
Hinn 31 árs gamli Aron er elstur í annars ungu KR liði og var valið auðvelt þegar kom að því að velja nýjan fyrirliða þó svo hann sé ekki uppalinn í Vesturbænum. Í viðtali sínu við Fótbolti.net segir Óskar Hrafn að reynsla Arons úr atvinnumennsku vegi þungt.
Fjölnismaðurinn Aron hefur leikið í Belgíu, Danmörku og Noregi. Hann er að fara inn í sitt annað tímabil með KR og þó liðið hafi ekki staðið undir væntingum í fyrra þá er ekki hægt að benda á frammistöðu Arons sem skoraði fimm mörk og gaf tíu stoðsendingar í 22 leikjum í Bestu deildinni.
KR sækir KA heim í 1. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu þann 6. apríl næstkomandi.