Runólfur Þórhallsson sviðsstjóri Almannavarna ræddi aðgerðir síðasta sólarhrings í Kvöldfréttum Stöðvar 2. Óveðrið gekk niður víðast hvar síðdegis en Almannavarnir starfa enn á hættustigi á Austfjörðum vegna þess. Til hafi staðið að aflétta því klukkan sex í dag en ákveðið hafi verið að framlengja það.
„Það eru ennþá verkefni í gangi á Austfjörðum. Meðal annars hefur flætt yfir hringveginn og það hafa rofnað aðrir vegir. Við erum ekki alveg komin fyrir vind, bókstaflega,“ segir Runólfur.
Verkefnin hafi verið fjölbreytt og víða um land, sem sé óvenjulegt. Flestir hafi þó fylgt fyrirmælum og haldið sig innandyra.
„Mikið um foktjón, samgöngutruflanir, rafmagnstruflanir, rafmagnsleysi, bæði á Vesturlandi og Suðurlandi. Þannig að þetta er mjög stórt verkefni sem við fengum í fangið undanfarna 36 klukkutíma.“
Runólfur gefur lítið fyrir umræður og gagnrýni á viðvaranir og viðbrögð Almannavarna vegna veðursins. Veðurstofan notist við eins góð gögn og hugsast getur.
„Þessi rauða viðvörun er bara notuð í neyð. En þar kemur skýrt fram að það séu miklar líkur á foktjóni. Við viljum náttúrlega ekki að fólk sé mikið á ferðinni þegar það eru þakplötur og aðrir lausamunir fljúgandi. Þannig að skilaboðin voru nokkuð skýr, að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.“