Körfubolti

Njarð­vík hafði betur í há­spennu­leik á Hlíðar­enda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emilie Sofie Hesseldal var með tvöfalda tvennu í kvöld.
Emilie Sofie Hesseldal var með tvöfalda tvennu í kvöld. Vísir/Diego

Njarðvík lagði Val með tveggja stiga mun í æsispennandi leik að Hlíðarenda þegar liðin mættust í Bónus deild kvenna í körfubolta, lokatölur 76-78.

Eins og lokatölur gefa til kynna var jafnt á öllum tölum framan af leik. Það var aðallega annar leikhluti, sem gestirnir frá Njarðvík unnu með fjögurra stiga mun, sem skildi liðin að í kvöld.

Slakur sóknarleikur beggja liða í þriðja leikhluta hafði einnig áhrif en varnarleikurinn var að sama skapi góður og spennustigið hátt.

Þá hjálpaði hversu vel Njarðvík dreifði stigum sínum en alls voru fjórir leikmenn liðsins í tveggja stafa tölum þegar kom að skoruðum stigum.

  • Paulina Hersler var stigahæst með 18 stig. Hún tók einnig 8 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.
  • Brittanny Dinkins skorðai 15 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
  • Lára Ösp Ásgeirsdóttir skoraði 13 stig, gaf 3 stoðsendingar og tók 2 fráköst.
  • Emilie Sofie Hesseldal skoraði 10 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Hjá Val skoruðu Jiselle Elizabeth Valentine Thomas og Alyssa Marie Cerino báðar 20 stig. Guðbjörg Sverrisdóttir kom þar á eftir með 14 stig.

Að 17. umferð lokinni er Njarðvík í 3. sæti með 12 sigra líkt og Þór Akureyri sem er í 2. sæti. Haukar tróna sem fyrr á toppnum, nú með 14 sigra, á meðan Valur er í 7. sæti með 7 sigra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×