Körfubolti

„Tinna Guð­rún Alexanders­dóttir var stór­kost­leg“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tinna Guðrún Alexandersdóttir átti stórleik í Keflavík.
Tinna Guðrún Alexandersdóttir átti stórleik í Keflavík. Vísir/Diego

Haukakonur náðu fjögurra stiga forskoti á toppi Bónus deildar kvenna í körfubolta í gærkvöldi eftir sigur í spennuleik í Keflavík.

Landsliðskonan Tinna Guðrún Alexandersdóttir fór á kostum í Haukaliðinu en hún skoraði 26 stig og gaf 5 stoðsendingar. Tinna hitti úr sex af átta þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Körfuboltakvöld ræddi Haukaliðið og þá sérstaklega frammistöðu Tinnu í þessum mikilvæga leik fyrir Haukakonur.

Er sá erfiði kominn?

„Helena, er sá erfiði kominn? Deildarmeistaratitilinn,“ spurði Hörður Unnsteinsson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds.

„Ég veit það ekki. Maður hefði alveg getað sagt það en mér finnst margir erfiðir leikir eftir. Ég held samt að þetta gefi þeim alveg hellings búst. Það er ógeðslega gaman að vinna þegar kaninn þinn er ekki með,“ sagði Helena Sverrisdóttir, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

Kanalausar en eru samt að vinna Keflavík í Keflavík

„Þú ert að sýna: Við erum drullugóðar. Við erum kanalausar en erum samt að vinna Keflavík í Keflavík. Ég held að það eigi eftir að gefa þeim helling. Deildin er að fara að skiptast og þá verða þetta alltaf erfiðir leikir,“ sagði Helena.

„Tinna Guðrún Alexandersdóttir var stórkostleg í kvöld,“ sagði Hörður og kallaði eftir umræðum um frammistöðu hennar.

Leyfa leiknum að koma til sín

„Hún hefur verið frábær á köflum í vetur og getur átt svona inn og út leiki. Er þetta eitthvað sem hún þarf að bæta mest í sínum leik? Að verða meira stabíl,“ spurði Hörður

„Ég held að hún þurfti að leyfa leiknum að koma til sín. Þegar hún er að þvinga sig inn í leikinn þá finnst mér hún vera að taka taktinn úr liðinu,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

„Varnarleikurinn var ekkert spes og þær voru ekki að koma í hana í fyrstu tveimur skotunum en Haukarnir spiluðu bara svo flottan bolta og fóru að velja rétt skot. Þess vegna var nýtingin svona góð,“ sagði Ólöf.

Það má sjá umfjöllunina hér fyrir neðan.

Klippa: „Tinna Guðrún Alexandersdóttir var stórkostleg“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×