Handbolti

Orri Freyr magnaður þegar það leið yfir annan dómarann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Freyr og Aron Pálmarsson fyrir leik kvöldsins.
Orri Freyr og Aron Pálmarsson fyrir leik kvöldsins. EHF

Orri Freyr Þorkelsson átti frábæran leik í liði Sporting sem mátti þola eins marks tap gegn Íslendingaliði Veszprém í Meistaradeild Evrópu karla í handbolta. Dómari leiksins stal hins vegar fyrirsögnunum en það leið yfir hann í fyrri hálfleik leiksins.

Leiknum lauk með 33-32 sigri heimamanna í Veszprém. Orri Freyr var markahæstur ásamt Hugo Descat í liði Veszprém og Martim Costa í liði Sporting, allir skoruðu þeir átta mörk. Orri Freyr var hins vegar sá eini sem var með 100 prósent skotnýtingu.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk í liði Veszprém og gaf eina stoðsendingu. Bjarki Már Elísson var hins vegar fjarri góðu gamni.

Handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen greinir frá því að annar af dómurum leiksins, hinn danski Jesper Madsen, hafi fallið í yfirlið. Hann er með meðvitund en Boysen segir að Mads Hansen hafi einn dæmt síðari hálfleikinn.

Þá varði Viktor Gísli Hallgrímsson 16 skot í fimm marka sigri Wisla Plock á Füchse Berlín, lokatölur 32-27.

Eftir leiki kvöldsins er Veszprém búið að tryggja sæti sitt í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Liðið er á toppi A-riðils með 11 sigra og aðeins eitt tap í 12 leikjum. Sporting er í 3. sæti með sjö sigra, eitt jafntefli og fjögur töp. Viktor Gísli og félagar eru í 6. sæti með fjóra sigra og átta töp.

Alls eru leiknir 14 leikir í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Að þeim loknum fara efstu tvö liðin í báðum riðlum beint í 8-liða úrslit á meðan liðin í 3. til 6. sæti fara í umspil um sæti í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×