Innlent

Séra Vig­fús Þór Árna­son látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Séra Vigfús Þór Árnason er látinn, 78 ára að aldri.
Séra Vigfús Þór Árnason er látinn, 78 ára að aldri. Grafarvogskirkja

Séra Vig­fús Þór Árna­son, fyrrverandi sókn­ar­prest­ur á Sigluf­irði og í Grafar­vogi, lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans í Kópa­vogi þann 27. fe­brú­ar, 78 ára að aldri.

Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu dagsins í dag.

Vig­fús Þór fædd­ist í Reykja­vík 6. apríl árið 1946 og ólst upp í Hlíðunum og síðan í Vog­un­um. Hann starfaði mikið að æsku­lýðsmá­l­um sem ungur maður og var val­inn fyrsti formaður Æsku­lýðsfé­lags Lang­holts­kirkju. Þar var hald­in fyrsta „popp­mess­an“ sem hafði heil­mik­il áhrif á æsku­lýðsstarf kirkj­unn­ar hér á landi. 

Hann fór sem skipt­inemi til Band­aríkj­anna á veg­um þjóðkirkj­unn­ar eftir starf sitt í Lang­holts­kirkju. Hann dvaldi í Chicago og kynnt­ist þar starfi bandarísku kirkjunnar.

Vigfús lauk kenn­ara­prófi frá Kenn­ara­skól­an­um árið 1969 og stúd­ents­prófi 1970. Fimm árum síðar lauk hann embætt­is­prófi í guðfræði frá HÍ og árin 1975-1976 stundaði hann fram­halds­nám í fé­lags­legri siðfræði og trú­fræði við Ludwigs Max­im­illiam-há­skól­ann í München. Hann stundaði svo fram­halds­nám í trú­fræði, pré­dik­un­ar­fræði, sálusorg­un og fjöl­miðla­fræði við Pacific School of Religi­on við Berkley-há­skól­a í Kali­forn­íu árin 1988-1989.

Sóknarprestur í Grafarvogi í 27 ár

Vig­fús Þór var vígður sókn­ar­prest­ur við Siglu­fjarðarprestakall 1976 og þjónaði þar um ára­bil. Hann var kjörinn fyrsti sókn­ar­prest­ur í Grafar­vog­sprestakalli árið 1989 og þjónaði þar uns hann lét af störf­um sök­um ald­urs árið 2016.

Vig­fús Þór gegndi fjölda trúnaðar- og fé­lags­störf­a í gegn­um tíðina. Hann sat í bæj­ar­stjórn Siglu­fjarðar, var formaður Presta­fé­lags Íslands, Li­ons­klúbbs Siglu­fjarðar og Li­ons­klúbbs­ins Fjörgynj­ar í Grafar­vogi. Þá var hann gerður að Melw­in Jo­nes-fé­laga, sem er æðsta viður­kenn­ing Li­ons­hreyf­ing­ar­inn­ar. Vig­fús var einnig virk­ur þátt­tak­andi í starfi Frí­múr­ar­a­regl­unn­ar og tengd­ist Knatt­spyrnu­fé­lag­inu Val sterk­um bönd­um.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Vig­fús­ar Þórs er Elín Páls­dótt­ir. Börn þeira eru Árni Þór, kvænt­ur Mari­ko Mar­gréti Ragn­ars­dótt­ur, Björg, gift Reimari Snæ­fells Pét­urs­syni, og Þór­unn Hulda gift Finni Bjarna­syni. Barna­börn Vig­fús­ar Þórs og El­ín­ar eru átta.

Ævisaga Vigfúsar Vilji er allt sem þarf kom út árið 2016 í útgáfu Bókaútgáfunnar Hóla. Ragnar Ingi Aðalsteinsson ritaði söguna og rekur hún ævi Vigfúsar gegnumæsku og uppvöxt til safnaðar- og félagsstarfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×