Elín Rósa verður þar með þriðja íslenska landsliðskonan hjá Blomberg Lippe sem situr í 4. sæti efstu deildar Þýskalands og lék til úrslita í þýsku bikarkeppninni um helgina en tapaði þar fyrir Ludwigsburg. Fyrir eru hjá liðinu Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir sem reyndar hefur verið frá keppni síðan að hún ristarbrotnaði í janúar.
Elín Rósa, sem er aðeins 22 ára, kom til Vals árið 2019 frá Fylki. Á sínum meistaraflokksferli með Val hefur hún unnið til tveggja Íslandsmeistaratitla, tveggja bikarmeistaratitla og eins deildarmeistaratitils. Auk þess var hún valin mikilvægasti leikmaðurinn um úrslitahelgi bikarkeppninnar í fyrra.
Þá hefur hún átt fast sæti í A-landsliði Íslands undanfarin ár og lék með liðinu í lokakeppni EM í desember síðastliðnum og á HM ári áður.
Elín Rósa er önnur íslenska landsliðskonan sem tilkynnt er í dag að fari í atvinnumennsku í sumar því nafna hennar, Elín Klara Þorkelsdóttir, hefur samið við sænsku meistarana í Sävehof.
„Ég er ótrúlega spennt fyrir að flytja út og einbeita mér að handboltanum að fullu. Tíminn hjá Val hefur verið frábær, umgjörðin og allt í kringum félagið er frábært og mér hefur liðið ótrúlega vel á Hlíðarenda. Nú einbeiti ég mér af því að klára þetta tímabil með stæl,“ segir Elín Rósa í tilkynningu Vals.
„Ég er ótrúlega stoltur af þessum næstu skrefum hjá Elínu. Hún hefur þróað sinn leik hér hjá okkur síðastliðin ár og bætt sig jafnt og þétt jafnt í vörn sem sókn. Það verður gaman að fylgjast með henni í þessari gríðarsterku deild sem þýska Budesligan er. Ég er sannfærður um að hún halda áfram að taka næstu skref,“ segir Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals.