Skoðun

Opið bréf til Loga Einars­sonar

Jón Ingi Bergsteinsson skrifar

Kæri Logi,

Ég hef satt best að segja nokkrar áhyggjur af stöðu mála í nýsköpunar- og sprotaumhverfinu - þá sérstaklega eftir að tillögur um hagræðingar í ríkisrekstri voru kynntar fyrr í vikunni.

Ég hef miklar áhyggjur af fjármögnunarmöguleikum fyrir sprotafyrirtæki ef vikið er frá nýsköpunarstefnu Íslands og kalla eftir uppfærslu á stefnunni. Ennfremur, kalla ég eftir því að hagræðingartillaga um að leggja niður Nýsköpunarsjóðinn Kríu (NSK) verði alfarið tekin af borðinu hjá ríkisstjórninni.

Sprotafyrirtæki og nýsköpun eru helsta undirstaða hagsældar á Íslandi

Síðan við stofnuðum IceBAN - íslenskir englafjárfestar fyrir 10 mánuðum, sem eru félagasamtök og tengslanet fyrir fólk sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum á Íslandi, hef ég áttað mig á því að Ísland stendur á krossgötum hvað varðar fjármögnun sprotafyrirtækja.

Krossgötum sem geta leitt til hnignunar í hagkerfinu og samfélaginu, ef við tökum ekki rétta beygju. Við þurfum að uppfæra stefnu Íslands þegar kemur að fjármögnun sprotafyrirtækja og nýsköpun, og vinna markvisst að því að að koma fleiri sprotafyrirtækjum á laggirnar. Annars endum við aftast í röðinni þegar kemur að því að laða viðskipti, utanaðkomandi sérfræðinga, og fjármagn til landsins.

Við erum lítil þjóð, en stórt land. Framtíð Íslands verður að byggja á hugviti sem eykur hagvöxt og útflutningstekjur, þ.e. fyrirtæki sem framleiða vöru eða þjónustu sem hægt er að selja út fyrir Ísland. Við þurfum að halda áfram að byggja upp háframleiðnisstörf, mennta fólk, sækja sérfræðinga erlendis frá, og styðja við fyrirtæki sem geta fært Íslandi tekjur og þannig bætt lífsgæði fyrir allt samfélagið.

Sprotafyrirtæki og nýsköpun eru lykillinn að slíkri hagsæld. Kerecis er nýjasta og eitt besta dæmið um slíkan árangur.

Nú er ekki rétti tíminn til að leggja árar í bát, heldur uppfæra og bæta stefnu Íslands í þessum málum.

Hvar er markaðsbrestur í Íslenska sprotaumhverfinu?

Fjármögnunarumhverfið fyrir sprotafyrirtæki á Íslandi eru ennþá í mótun. Það eru takmarkaðir möguleikar á fjármagni og umhverfið er enn óþroskað miðað við það sem þekkist á Norðurlöndunum og í Evrópu.

Ég nefni hér tvö dæmi þessu til stuðnings

Englafjárfestingar eru nær óþekkt hugtak meðal almennings og fjársterkra einstaklinga. Fyrsta tengslanetið til að efla þetta grunnstig fjármögnunar var aðeins sett á stokk á síðasta ári. Sprotafyrirtæki og áhrifaaðilar í umhverfinu hafa talað um það í mörg ár, hversu mikilvægt það er að efla englafjárfestingar á Íslandi enn frekar. Þetta hefur gengið hægt og mun taka tíma. Erfitt hefur reynst fyrir sprota að nálgast englafjárfesta á skilvirkan hátt og það mun taka tíma að mynda traust milli þessara aðila í umhverfinu til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum.

Fyrstu vísisjóðir landsins voru aðeins stofnaðir fyrir rétt rúmum áratug. Það er ekki fyrr en nýlega, sem við fórum að sjá framþróun í vísifjárfestingum í sprotafyrirtækjum. Vísisjóðaumhverfið er mjög ungt á Evrópskum og Norrænum mælikvarða. Sjóðirnir eru fáir og hafa takmarkaða getu til fjárfestinga. Flestir vísisjóðirnir eru “generalistar” (sjóðir sem hafa breiða fjárfestingastefnu) og koma oftast inn á seinni stigum fjármögnunar. Þeir hafa sjaldan komið inn með fjármagn á fyrstu stigum eða grunnstiginu (pre-seed).

Fjármögnunarferill sprotafyrirtækja er flókinn og vinnunni er ekki lokið

Fjármögnunarferill sprotafyrirtækja er skilgreint eftir þroska fyrirtækja. Fyrsta fjármögnun frá utanaðkomandi aðilum kemur yfirleitt inn á grunnstiginu (pre-seed), þegar fyrirtæki eru rétt að byrja. Næsta fjármögnun kemur svo á fræ (seed) stiginu, þegar vöxtur, sala og framþróun á vörunni hefur komist lengra. Næstu stig, þ.e. ‘Vöxtur A’ til ‘Vöxtur E’ (Series A, B, C, to Series E), koma svo seinna þegar fyrirtæki eru farin að vaxa almennilega og farin að sýna fram á traustan og stóran tekjustraum.

Mismunandi þroskastig krefjast mis hárra fjárhæða. Fjárfestar starfa á mismunandi stigum, og eru því með mismunandi ávöxtunarkröfur eftir því sem líður á. Nær enginn fjárfestir starfar á öllum þessum stigum í einu.

Erlendir sjóðir og einkafjárfestar eru starfræktir á öllum stigum, en flestir englafjárfestar koma inn á grunnstiginu, og jafnvel fyrir það. Erlendis, starfa flestir vísisjóðir á grunnstiginu, fræ, og Vöxtur A og B. Aðrir sjóðir, líkt og séreignarsjóðir (private equity) starfa svo á seinni stigum fjárfestinga.

Það er þó ekki alltaf þörf á að fara í gegnum öll þessi stig. Margir sprotar geta jafnvel komist á laggirnar eftir grunnstigið eða fræ. Hinsvegar eru margir sprotar sem eru með háan þróunarkostnað og þurfa oft að fjármagna sig í gegnum það ferli með fjárfestum sem koma inn á öllum þessum stigum með mismunandi fjárfestingarupphæðir. Það má því segja að mesta þörfin sé alltaf á grunnstiginu og fræ stiginu.

Á Íslandi erum við ennþá langt frá því að hafa tryggt nóg aðgengi að mismunandi fjármagni fyrir sprotafyrirtæki á öllum þessum stigum.

Markaðsbrestur á grunnstiginu (pre-seed) er enn til staðar

Það er ennþá stórvæginleg vöntun á fjármagni á grunnstiginu (pre-seed) á Íslandi. Erlendis koma viðskiptaenglar inn með smá fjármagn á þessu stigi, stundum samhliða vísisjóðum sem eru virkir á grunnstiginu, jafnvel líka með mótframlagi frá ríkisreknum sjóðum (eins og t.d. EIFO í Danmörku). Fjármagn á grunnstiginu er oft blanda af fjármagni frá einkafjárfestum og styrkjum (soft funding).

Fjöldi englafjárfesta á Íslandi er ennþá takmarkaður. Það eru of fáir sem hafa tekið þetta hlutverk að sér. Þetta er lítill hópur einstaklinga sem hefur takmarkaða getu til að fjárfesta í þeim verðugu sprotafyrirtækjum sem spretta upp hér á landi.

Enn fremur, er stórvæginleg vöntun á vísisjóðum sem geta verið virkir á þessu stigi samhliða englafjárfestum.

Þetta er hægt að laga til dæmis með því að

●Fjölga englafjárfestum á Íslandi með aukinni fræðslu til einstaklinga með sterka eiginfjársstöðu og annarra fagfjárfesta. Efla og styðja við englaumhverfið með því að koma á móts við fjárfestingar frá englafjárfestum, t.d. með krónu-fyrir-krónu fjárfestingar frá NSK. Slíkt hefur virkað vel á hinum norðurlöndunum.

●Uppfæra skatta og lagaumhverfið í kringum fjárfestingar og skuldabréf til sprotafyrirtækja, svo það sé hugsanlega skattalegur hagur að því fyrir bæði frumkvöðla og stofnendur að fjárfesta í sprotafyrirtækjum á mismunandi vegu.

●Halda áfram að hvetja til stofnunar á nýjum grunnstigs (pre-seed) vísisjóðum og gera NSK kleift að fjárfesta í þeim.

Stórvæginleg vöntun á sérhæfðum vísisjóðum til að fjárfesta í háframleiðni og hátækni

Sprotafyrirtæki verða sífellt sérhæfðari. Þau sprotafyrirtæki sem eru starfrækt í djúptækni, lífvísindum og öðrum flóknari iðngreinum sem byggja á rannsóknum og vísindum hafa hingað til átt erfitt uppdráttar. Takmarkaður fjöldi fjárfesta treystir sér til að fjármagna slíka sprota.

Fjárfestingar í þessum sprotum geta verið flóknar, þá sérstaklega ef fjárfestar hafa litla þekkingu á iðnaðinum. Fáir aðilar hafa fjárfest á þessum sviðum hingað til á Íslandi og það er því gríðarleg þörf á að koma á stokk fleiri sérhæfðum vísisjóðum sem geta fjárfesti í þessum sérhæfðu sprotafyrirtækjum samhliða englafjárfestum og öðrum mögulega erlendum fjárfestum á mismunandi stigum.

Það hefur sýnt sig að sprotar sem byggja á djúpri þekkingu í vísindum og rannsóknum geta skilað töluverðum fjárhæðum inn í samfélagið í formi atvinnu, skatta og útflutningstekna. Ávinningurinn fyrir allt samfélagið getur verið töluvert stærri en í annars minni sérhæfðum sprotafyrirtækjum.

Þetta er hægt að laga með því að

●Hvetja fleiri nýja sjóðstjóra til að stofna sérhæfða sjóði sem einblína á að fjárfesta í hátækniiðnaði á grunnstiginu og fræ stiginu. Slíkir sjóðir geta virkað sem brú fyrir sprotafyrirtæki út á við, og opnað dyr fyrir stærri erlenda sjóði að fjárfesta í slíkum sprotafyrirtækjum á Íslandi.

●Nýta fjármagn frá NSK til að fjárfesta í fleiri sérhæfðum sjóðum, og þannig styðja við vísinda- og rannsóknarumhverfið á íslandi í að koma fleiri slíkum sprotafyrirtækjum á laggirnar

Vöntun á áframhaldandi stuðning við áhrifaaðila í umhverfinu

Sprotaumhverfið á Íslandi er lítið. En síðustu ár hafa fleiri aðilar sprottið upp á yfirborðið sem vinna markvisst að því að efla og styðja við framþróun í nýsköpun og sprotaumhverfinu. Þar má nefna viðskiptahraðla, klasa, félagasamtök og fleira. Þessir aðilar sinna mikilvægu hlutiverki í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi og aðstoða sprotafyrirtæki í að komast á laggirnar, sem og styðja við fjárfesta sem hafa áhuga á því að fjármagna sprota og nýsköpun.

Þjónustan er margþætt, en yfirleitt byggð á kennslu, leiðbeiningu og stuðningi við bæði sprotafyrirtæki og fjárfesta. Allt þetta eykur líkurnar á því að fleiri fjárfestar og sprotafyrirtæki komist á laggirnar sem geti áfram stutt við framþróun í samfélaginu.

Þetta umhverfi er ennþá brothætt, og það er mikilvægt að Íslenska ríkið, þ.e. NSK haldi áfram að styðja við þetta umhverfi til frambúðar.

Hagræðingartillaga gagnvart Nýsköpunarsjóðsins Kríu sendir röng skilaboð út í samfélagið

Það hryggir mig að sjá tillöguna um að leggja niður Nýsköpunarsjóðinn Kríu (NSK). Tillagan er byggð á því að ‘markaðsbrestur’ sé ekki lengur til staðar. En það er hreinlega rangt. Enda hef ég gert grein fyrir því hér að ofan og upplifað af eigin raun.

Ég er samt sem áður sammála því að stefna og lögin í kringum NSA og Kríu, forverar NSK, hafi verið komin á tíma. NSA og Kría voru með stefnu sem snéri að því að styðja við ákveðin verkefni og sinna markaðsbrest í umhverfinu á sínum tíma. Til að mynda fjárfesta beint í fyrirtækjum án aðkomu annarra fjárfesta. Það má meta það svo, að sá brestur sé að hluta til ekki til staðar lengur. En nú þarf NSK að leyfa markaðinum að ráða ferðinni og halda áfram að styðja við fjárfestingar með samsvarandi fjármagni (matching-capital, krónu-fyrir-krónu), í stað þess að leiða fjárfestingarnar. Fjármögnunarumhverfið fyrir sprota er langt frá því að vera komið á sama stað og í Norðurlöndunum (hvað þá Evrópu) og NSK þarf að halda áfram að styðja við fjárfesta í umhverfinu með lausnum sem eru ekki í samkeppni við aðra fjárfesta, eða blástimpla fyrirtæki.

Samkvæmt lögum er hlutverk sjóðsins að “... hvetja til og auka framboð fjármagns og fjármögnunarkosta til handa sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og auka viðnámsþrótt fjármögnunarumhverfisins, í samræmi við markmið laga þessara. Sjóðurinn hefur jafnframt það hlutverk að hvetja með fjárfestingum sínum einkafjárfesta til þátttöku í fjármögnun nýsköpunar.”

Það má alveg deila um það hvernig lögin eru skrifuð. En NSK var sett á stokk af fyrirmynd svipaðra stofnana í Norðurlöndunum, sem hafa virkað mjög vel og sannað að þetta séu mikilvægir hlekkir í fjármögnun og framþróun sprotafyrirtækja á Norðurlöndunum. Ég hef persónulega aðeins góða reynslu af EIFO/Vækstfonden í Danmörku.

Síðustu vikur hefur stjórn og starfsmenn NSK lagt mikla vinnu í að ákveða nýja stefnu fyrir NSK sem tryggir áframhaldandi stuðning við nýsköpunarumhverfið og fjárfesta. Sú vinna þarf að fá að komast af stað áður en farið er að tala um einhverskonar hagræðingu (ef það er yfirhöfuð þörf fyrir slíkt).

Að leggja niður NSK myndi senda röng skilaboð út í samfélagið, þ.e. að ríkið sjái ekki samfélagslegan hag í því að styðja við og efla sprotafyrirtæki og nýsköpun. Slík skilaboð væri móðgun við allt umhverfið, og sérstaklega þau tækifæri og fjárfesta sem hafa notið góðs af samstarfi NSK til dagsins í dag. Þetta hefði gríðarlega neikvæð áhrif á ríkið, fjárfesta og sprotafyrirtæki til frambúðar.

Fjárhagslegur ávinningur þessara tillögu yrði mjög takmarkaður, en áhrifin til lengri tíma gríðarlega stór og neikvæð gagnvart ríkinu og samfélaginu öllu. Ríkið væri hreinlega að skóta sig í fótinn til frambúðar og drepa allan möguleika á því að búa til fleiri afkastamikil sprotafyrirtæki og einhyrninga (unicorns) sem gætu skilað tug milljörðum króna í skatta og útflutningstekjur í framtíðinni.

Neikvæð áhrif eru strax farin að sjást í umhverfinu

Bara það eitt, að þessi tillaga hafi komist í gegn, og verið sett á blað, hefur nú þegar haft gríðarlega neikvæð áhrif á umhverfið, sem verður erfitt að laga nema að ríkisstjórnin bregðist við og tjái sig strax um þetta mál.

Hér nefni ég nokkur dæmi:

●Sjóðir sem NSK (Kría) hefur fjárfest í standa núna eftir sem eitt stórt spurningarmerki. Óviss um það hvort fjármagn sem NSK hefur skrifað undir muni yfir höfuð berast inn í sjóðina ef þessi tillaga verður samþykkt. Slíkt getur haft gríðarlega neikvæð áhrif á möguleika þessara sjóða til að halda áfram rekstri og fjárfestingum. Þeim er beinlínis haldið í gíslingu af ríkinu eins og er.

●Fyrirtæki sem NSK (NSA) hefur fjárfest í, standa núna frammi fyrir því að aðrir fjárfestar geti hreinlega hrifsað eignarhlut NSK á ódýru verði, og þar með haft gríðarlega neikvæð áhrif á þau fyrirtæki til frambúðar, sem og aðra fjárfesta sem hafa fjárfest í þeim félögum. Þetta hefur neikvæð áhrif á verðmat þeirra fyrirtækja og takmarkar getu þeirra til að vaxa og sækja meira fjármagn í framtíðinni. Þeim er líka haldið í gíslingu.

●Stuðningsaðilar og samtök í umhverfinu, sem hafa notið góðs af stuðningi frá NSK til að efla sprotaumhverfið, nýsköpun, og sprotafjárfestingar, standa ennþá á völtum fótum. Ef NSK hverfur, geta þessir aðilar hreinlega horfið, og með því störf, tekjur, fjárfestar og sprotafyrirtæki. Þessir aðilar sjá fram á óstöðuga tíma sem geta valdið hnignun í umhverfinu, á meðan þessi tillaga fær að haldast á lofti.

Í stuttu máli. Ef NSK hverfur, mun það hafa bein og óbein áhrif á allt samfélagið til lengri tíma. Skilaboðin ein og sér, frá hagræðingarhópnum, hafa nú þegar haft neikvæð áhrif á fjárfesta, sprotafyrirtæki og umhverfið allt. Ríkisstjórnin verður að svara nýsköpunarumhverfinu, strax.

Hvað skal til bragðs taka?

Kæri Logi. Ég vona að þessi skrif hvetji þig til aðgerða. Við þurfum að halda áfram að fylgja Nýsköpunarstefnu Íslands og NSK verður að halda áfram að styðja við umhverfið og koma á móts við þær holur sem fyrir eru, án þess að keppast við markaðinn eða aðra fjárfesta.

Ég hvet þig eindregið til þess að bregðast við og koma því á framfæri til ríkisstjórnarinnar og nýsköpunarumhverfisins, að Nýsköpunarsjóðurinn Kría verði ekki lagður niður. Því það myndi aðeins hafa neikvæð áhrif á ríkið og hagsæld í Íslensku samfélagi til frambúðar.

Höfundur er eigandi LIFA Ventures, og stofnandi og stjórnarformaður IceBAN - íslenskir englafjárfestar, sem eru félagasamtök og tengslanet fyrir fólk sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Eflum mál­um­hverfi barna

Bjarnfríður Leósdóttir,Harpa Stefánsdóttir,Hildur Rut Sigurbjartsdóttir,Silja Jóhannsdóttir,Þorbjörg Saga Ásgeirsdóttir skrifar

Sjá meira


×