Bæði lið eru í harðri baráttu við topp töflunnar og því var búist við hörkuleik, annað kom á daginn. Heimamenn fengu að vera mun meira með boltann en við hvert tækifæri sem gafst þá skar Atalanta vörn heimaliðsins í sundur og skilaði boltanum oftast nær í netið.

Fyrsta markið kom þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum. Weston McKennie, miðjumaður Juventus, gerðist þá sekur um að handleika knöttinn innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.
Mateo Retegui fór á punktinn og brást ekki bogalistin. Hans 22. deildarmark í aðeins 26 leikjum staðreynd. Staðan orðin 0-1 og þannig var hún þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Síðari hálfleikur var varla farinn af stað þegar Marten de Roon þrumaði boltanum í netið frá vítateigslínunni. Staðan orðin 0-2 og heimamenn í allskyns vandræðum. Bakvörðurinn Davide Zappacosta gerði svo út um leikinn á 66. mínútu með góðu skoti innan vítateigs eftir sendingu Sead Kolašinac.
Ademola Lookman fullkomnaði svo niðurlægingu Juventus á 77. mínútu. Hann lék á mann og annan áður en skot hans frá vítateigslínunni hafði viðkomu í varnarmanni og endaði þar með í netinu. Staðan orðin 0-4 og reyndust það lokatölur.
Atalanta er í bullandi titilbaráttu með 58 stig að loknum 28 leikjum. Napoli er með 60 stig í 2. sæti og Inter er á toppnum með stigi meira. Juventus er í 4. sæti með 52 stig.
Fyrr í kvöld hafði Matías Soulé tryggt Roma 1-0 sigur á Empoli. Roma er í 7. sæti með 46 stig.