Erlent

Eins skip­verja enn leitað og mikið um­hverfis­slys í upp­siglingu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Leit stendur enn yfir að einum áhafnarmeðlimi annars skipsins.
Leit stendur enn yfir að einum áhafnarmeðlimi annars skipsins. AP/Denys Mezentsev

Fraktskipið portúgalska Solong sem rakst á efna- og olíuflutningaskipið Stena Immaculate í Norðursjó var með 15 gáma af natríumblásýrusalti um borð. Bæði skip urðu fyrir talsverðu tjóni við áreksturinn og eins áhafnarmeðlims Solong er enn leitað.

Björgunarstarf hefur staðið yfir úti fyrir Hull á Englandi síðan um klukkan tíu í morgun. Áreksturinn átti sér stað um sextán kílómetra undan ströndum Austur-Jórvíkurskíris. Portúgalska flutningaskipið Solong sigldi á bandaríska efna- og olíuflutningaskipið MV Stena Immaculate sem lá við akkeri en breska veðurstofan hafði varað við mikilli þoku og erfiðum siglingaskilyrðum í morgun.

Natríumblásýrusalt er baneitrað duft sem er meðal annars notað við vinnslu málmblendis og við gerð litarefnis. Prófessor í sjávarlíffræði sem breska ríkisútvarpið ræddi við segir natríumblásýrusalt leysast auðveldlega upp í vatni og að það geti banvænt sjávardýrum.

Eins og fram kom fyrr í dag kom gat á tank með þotueldsneyti og við það kviknað eldur um borðþ Nokkrar sprengingar hafa orðið og það þotueldsneyti sem ekki er fuðrað upp lekur út í Norðursjó. Því er ljóst að mikið umhverfisslys er í uppsiglingu.

Öllum áhafnarmönnum Stena hefur verið bjargað og hlúð er nú að þeim á föstu landi en enn er eins fjórtán áhafnarmanna Solong leitað. Breska ríkisútvarpið ræddi við eiganda skipsins, Ernst Russ.

„Þrettán fjórtán áhafnarmeðlima hefur verið komið óhultum á fast land. Leit að þeim sem enn er týndur stendur yfir,“ er haft eftir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×