Breska ríkistútvarpið hefur eftir héraðsstjóranum Andrei Vorobyev að manntjónið hafi orðið í úthverfabæjunum Vidnoye og Domodedovo. Sjö íbúðir í einni blokk eru sagðar hafa eyðilagst.
Borgarstjóri Moskvu, Sergei Sobyanin, segir að loftvarnir Rússa hafi skotið 73 dróna niður áður en þeir hittu skotmörk sín og urðu nokkrar skemmdir af braki drónanna sem voru skotnir niður.
Rússar fullyrða síðan að alls hafi 337 drónar verið skotnir niður í nótt í tíu héruðum, flestir þó í Kúrsk héraði, þar sem Úkraínumenn hafa barist við rússa síðustu mánuði.
Lestarsamgöngur hafa gengið úr skorðum og flugsamgöngur einnig en árásin er sögð ein sú umfangsmesta frá því Rússar hófu innrás sína í Úkraínu í febrúarmánuði 2022.
Árásin var gerð aðeins nokkrum klukkustundum áður en fulltrúar Úkraínu og Bandaríkjanna hittast á mikilvægum fundi í Sádí Arabíu þar sem Bandaríkjamenn freista þess að fá Úkraínumenn til að sættast á vopnahlé.
Rússar hafa einnig gert fjölmargar loftárásir á Úkraínu síðustu daga, í aðdraganda fundarins, og er talið að um tugur hafi látið lífið í slíkum árásum um liðna helgi.