Sindri Sindrason hitti Ingu Rún í morgunkaffispjalli á fallegu heimili hennar í síðustu viku og fékk að kynnast hinni hliðinni á þessari ljúfu konu sem er alger nagli.
„Ég er nagli og læt ekkert vaða yfir mig,“ segir Inga sem er fædd þann 3. maí árið 1963. Hún var í Austurbæjarskóla, fór í MR og þaðan í bóksafns- og upplýsingafræði í Háskóla Íslands sem hún segir að hafi hjálpað henni í samningafræðinni.
„Mig hefur aldrei langað að verða kennari þannig en alltaf haft djúpa virðingu fyrir þeim. Þetta er rosalega skemmtileg vinna og maður er að vinna með alveg gríðarlega góðu fólki. Ég hef verið alveg ofsalega heppin með samstarfsfólk. Auðvitað koma svona tímar, eins og núna sem eru erfiðir, en þetta eru bara verkefni til að klára,“ segir Inga sem fékk á sig umtalsverða gagnrýni í ferlinu þegar kom að samningunum.
„Þetta er náttúrulega misskilningur alla leið. Hjartað okkar slær með kennurum. En það sem hefur verið vandamálið í þessu er að upplýsingaflæðið til kennara hefur ekki verið neitt sérstaklega gott. Það þarf ekki bara að hækka laun kennara heldur líka bæta starfsaðstæður þeirra,“ segir Inga í Íslandi í dag en hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.