Viðskipti innlent

Kvarta til Sam­keppnis­eftir­litsins vegna meints ólög­legs sam­ráðs SVEIT

Kjartan Kjartansson skrifar
Efling og ASÍ að kvörtuninni til Samkeppniseftirlitsins auk SGS.
Efling og ASÍ að kvörtuninni til Samkeppniseftirlitsins auk SGS. Vísir

Tvö landssambönd og eitt stéttarfélag hafa kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna kjarsamnings Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) og Virðingar. Þau telja að samningurinn feli í sér ólöglegt samráð veitingafyrirtækja en félögin hafa nefnt Virðingu gervistéttarfélag.

Í kvörtun sinni halda Alþýðusamband Íslands, Starfsgreinasambandið og Efling því fram að Virðing sé í raun undir stjórn veitingafyrirtækja og samningur félagsins við SVEIT feli þannig í sér samráð um launakjör sem sé brot á samkeppnislögum.

Kjarasamningur Virðingar og SVEIT hafi þannig ekki verið raunverulegur kjarsamningur heldur einhliða ákvörðun atvinnurekenda. Hann skerði réttindi og kjör launafólks.

Forsvarsmenn Eflingar og SVEIT hafa átt í hörðum orðaskiptum undanfarin misseri allt frá því að stéttarfélagi varaði við Virðingu og nefndi það gervistéttarfélag í desember. Framkvæmdastjóri SVEIT vísaði því á bug að samtökin tengdust Virðingu á nokkurn hátt. 

Efling birti síðar lista yfir fimm veitingastaði sem félagið sagði standa að baki kjarasamningi Virðingar við SVEIT. Þar á meðal voru Subway, Hard Rock Cafe og fleiri staðir.

Í tilkynningu ASÍ, SGS og Eflingar nú er því haldið fram að Virðing sé ekki raunverulegt stéttarfélag heldur framlenging á hagsmunum atvinnurekenda. Það veiti enga þjónustu og hafi engar samskiptaupplýsingar á heimasíðu sinni auk þess sem kjarasamningur Virðingar við SVEIT skerði kjör og réttindi launafólks. Stofnendur og stjórnarmenn Virðingar séu allir annað hvort veitingamenn sjálfir eða bundnir veitingamönnum nánum böndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×