Íslenski boltinn

„Mjög krefjandi tíma­bil fram­undan“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Aron Sigurbjörnsson lék vel með Vestra í fyrra. Hann tekur annan slag með liðinu í sumar.
Eiður Aron Sigurbjörnsson lék vel með Vestra í fyrra. Hann tekur annan slag með liðinu í sumar. vísir/anton

Albert Ingason, sérfræðingur Stúkunnar, segir að tímabilið gæti orðið strembið fyrir Vestra og erfitt sé að rýna í stöðu liðsins vegna mikilla breytinga sem hafa orðið á því.

Vestra er spáð 10. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2. Vestri endaði einmitt í 10. sæti deildarinnar í fyrra.

„Það er krefjandi verkefni sem bíður þeirra í sumar. Þeir eru búnir að missa marga leikmenn, ellefu leikmenn farnir og fyrirliðinn [Elmar Atli Garðarsson] verður í banni fyrstu 6-7 umferðunum þannig að það er mjög krefjandi tímabil framundan hjá Vestra,“ sagði Albert.

Vestri hefur bæði misst marka- og stoðsendingahæstu leikmenn sína frá síðasta tímabili; Andra Rúnar Bjarnason og Benedikt Warén.

„Þeir eru búnir að fá Kristoffer Grauberg til sín, stór og stæðilegur framherji, en þá vantar annan til að leiða línuna. Vestramenn voru þéttir undir lok síðasta tímabils og fóru svolítið að einblína bara á varnarleik. Davíð Smári [Lamude, þjálfari Vestra] er góður að „drilla“ varnarleikinn. Þá dró Andri Rúnar vagninn, skoraði mikið undir lokin og er ein stærsta ástæðan fyrir því að Vestramenn héldu sér uppi,“ sagði Albert.

Klippa: 10. sæti Vestri

„Þeir treysta mikið á Grauberg. Túfa hefur skorað mikið á undirbúningstímabilið en þeir þurfa að auka breiddina, bæði vantar þá mann fremst og líka í þetta þriggja hafsenta kerfi. Jeppe Gertsen fór. Það vantar líka breidd þar, ef einn af þessum hafsentum dettur út.“

Vestri sækir Val heim í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni sunnudaginn 6. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×