„Mér fannst við mjög fínir í fyrri hálfleik. Pressan var allt í lagi. Við héldum vel í boltann. Sköpuðum kannski ekki það mikið en mér fannst seinni hálfleikurinn ekki góður,“ sagði Guðlaugur Victor við Aron Guðmundsson í Pristina en viðtalið má sjá hér að neðan.
Guðlaugur Victor hélt áfram:
„Þeir náðu að pinna okkur þannig að við náðum aldrei að komast í neina pressu [í seinni hálfleik]. Þeir fara maður á mann. Við þurfum að vera meira kúl í að halda meira í boltann og þora því. Við fórum að vera meira „direct“, en á þann hátt að við vorum ekki í stöðum til að vera direct og töpuðum örugglega öllum seinni boltum.“
Staðan var 1-1 í hálfleik en sigurmark Kósovó kom á 58. mínútu eftir að Elvis Rexhbecaj vann boltann af Hákoni Arnari Haraldssyni við vítateig Íslands.
„Þetta mark sem þeir skora í seinni, við vitum að svona getur gerst þegar áherslurnar eru eins og þær eru. En við fáum líka þrjú mjög góð færi í seinni hálfleik. Heilt yfir svekkjandi en það er bara hálfleikur í þessu einvígi,“ sagði Guðlaugur Victor.
Liðin mætast aftur á Spáni á sunnudaginn, klukkan 17 að íslenskum tíma, og þar þarf Ísland núna sigur til að vinna einvígið.
„Þetta er fyrsti leikurinn undir stjórn nýs þjálfara. Það eru nýjar áherslur. Margt fínt sem við gerum. Margt sem þarfa að bæta, sem er mjög eðlilegt. Við höfum 2-3 daga til að fara yfir það og ég tel möguleika okkar á að vinna þá á Spáni mjög góða,“ sagði Guðlaugur Victor.