„Það er samstaða um það í Washington að líta þannig á að Ísland sé á yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Þannig að í ljósi útþenslustefnu nýrrar stjórnar, sem hún fer ekkert leynt með, munu þeir vilja tryggja það að íslensk stjórnvöld fari í einu og öllu að vilja þeirra,“ segir Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor í samtali við fréttastofu.
Hann segir hins vegar ekki ljóst hversu langt Trump-stjórnin sé tilbúin að ganga, til þess að tryggja að ríki innan áhrifasvæðisins lúti vilja Bandaríkjanna.
„Það eigum við eftir að sjá á Grænlandi. En þeir eru að ganga æði langt, og nærri bæði dönskum og grænlenskum stjórnvöldum.“
Hagsmunir margra smáríkja undir
Ekki sé hægt að túlka atburðarás síðustu daga og vikna sem annað en tilraun Trump-stjórnarinnar til að taka yfir Grænland.
J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti bandaríska herstöð á Grænlandi í gær, og lét hafa eftir sér að Danir hefðu ekki staðið sig nægilega vel í fjárfestingum í innviðum á eyjunni, sem er sjálfsstjórnarsvæði undir dönsku krúnunni. Ummælin féllu ekki vel í kramið hjá forsætisráðherra Danmerkur, né heldur utanríkisráðherranum.
„Ísland á allt undir því að stór ríki virði fullveldi lítilla ríkja, virði alþjóðalög og virði landamæri ríkja. Ef heimurinn þróast í þá átt að stóru ríkin, eins og Rússland er að gera og Bandaríkin líka, hætta að virða landamæri ríkja, þá er illa komið fyrir smáríkjum. Ekki bara okkur heldur mörgum öðrum.“
Spurningin hversu mikla stjórn Bandaríkin vilja
Baldur er fullviss um að Bandaríkin muni aldrei sætta sig við að önnur ríki geti íhlutast um hernaðaruppbyggingu á Íslandi.
Stærsta spurningin sem eftir standi sé hvort bandarísk stjórnvöld muni vilja hlutast til um hvert Ísland hallar sér í viðskiptum og efnahagsmálum.
„Og hvort að Bandaríkin muni skipta sér af fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Það er stóra spurningin, hvort Bandaríkin vilji bara ráða ferðinni þegar kemur að utanríkisstefnu Íslands. Ekki bara þegar kemur að varnarmálum heldur líka viðskiptum og efnahagssamvinnu,“ segir Baldur.