Elías Már Ómarsson, leikmaður NAC Breda, og Brynjólfur Darri Willumsson, leikmaður Groningen, komu báðir inn af bekknum eftir rúman klukkutíma. Elías Már leysti framherjann Sydney van Hooijdonk af velli. Brynjólfur kom inn á hægri kantinn fyrir Mats Seuntjens.
Staðan var þá 0-1 fyrir Groningen en gestirnir þurftu að spila síðustu mínúturnar einum manni færri eftir að Tika De Jonge fékk sitt annað gula spjald og var vikið af velli.
Við það færðist mikill hiti í leikinn og heimaliðið NAC Breda sótti stíft. Þónokkrir leikmenn, þar á meðal Brynjólfur, fengu gult spjald fyrir rifrildi sem braust út.

Alveg í blálokin fiskaði Elías Már svo vítaspyrnu, með því að sparka boltanum í hönd varnarmanns, og gaf tækifæri til að jafna leikinn. Hann fékk reyndar ekki að fara sjálfur á punktinn, Clint Leemans sá um það og tryggði stigið.
Groningen er í áttunda sæti með 32 stig. NAC Breda í ellefta sæti með 30 stig. Bæði lið eru í harðri baráttu um að enda í einu af efstu níu sætunum, sem gefa möguleika á Evrópubolta.
Aðrir leikir í Hollandi
Kristian Nökkvi Hlynsson spilaði rúmar áttatíu mínútur fyrir Sparta í 0-3 sigri á útivelli gegn Fortuna Sittard. Nökkvi Þeyr Þórisson spilar einnig fyrir Sparta og kom inn á síðustu tíu mínúturnar.
Rúnar Þór Sigurgeirsson var ekki í leikmannahópi Willem II sem tapaði 0-2 á heimavelli gegn Almere.