Erlent

For­seti Suður-Kóreu leystur frá em­bætti

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Yoon Suk Yeol á sér fjölmarga stuðningsmenn. Fjöldi stuðningsmanna og mótmælenda safnaðist saman við dómshúsið í aðdraganda dómsuppkvaðningar.
Yoon Suk Yeol á sér fjölmarga stuðningsmenn. Fjöldi stuðningsmanna og mótmælenda safnaðist saman við dómshúsið í aðdraganda dómsuppkvaðningar. Vísir/EPA

Yoon Suk-yeol, forseti Suður-Kóreu, hefur verið leystur úr embætti af stjórnlagadómstól landsins. Dómstóllinn var einróma í ákvörðun sinni og taldi forsetann hafa brotið gegn stjórnarskránni með yfirlýsingu herlaga í desember.

Yoon var settur af og ákærður eftir misheppnaða tilraun hans til að lýsa yfir herlögum í landinu. Setti hann herlögin á, að eigin sögn, til að vernda landið frá kommúnískum áhrifum frá Norður-Kóreu. Síðan lét hann herinn loka þinghúsinu til að koma í veg fyrir að þeir gætu kosið um afnám herlaganna. Þingmenn stjórnarandstöðunnar komust þó inn í þingið og kusu um að nema herlögin úr gildi.

Sjá einnig: Þúsundir mótmælenda vilja afsögn forsetans

Moon Hyung-bae, forseti stjórnlagadómstólsins, vísaði frá öllum röksemdum Yoon fyrir yfirlýsingunni og sagði hann hafa farið út fyrir valdsvið sitt. Hann hafi brotið gegn stjórnarskránni og svikið kóresku þjóðina með því að kalla saman hermenn til að hindra störf þingsins.

„Neikvæðar afleiðinar og gáruáhrif þessara aðgerða eru talsverðar. Ávinningurinn af því að koma aftur á reglu með brottvikningu úr embætti vegur þyngra en kostnaðurinn sem felst í því að víkja sitjandi forseta,“ sagði Hyung-Bae.

Þingið kærði Yoon um embættisafglöp 14. desember síðastliðinn en þurfti samþykki stjórnlagadómstólsins til að víkja honum formlega úr starfi. 

Ríkisstjórnin hefur nú sextíu daga til að halda kosningar en Han Duck-soo, sitjandi forseti, mun sitja áfram þar til nýr forseti tekur við. Duck-soo hafði einnig verið kærður til embættismissis eftir setningu herlaganna en var sýknaður af stjórnlagadómstólnum.


Tengdar fréttir

Tekur við stöðu starfandi forseta á ný

Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu hefur vísað frá ákærum til embættismissis á hendur forsætisráðherranum Han Duck-soo. Hann tekur því aftur við stöðunni sem starfandi forseti landsins.

For­seti Suður-Kóreu leystur úr haldi

Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu sem var handtekinn í lok janúar, var leystur úr haldi í dag. Forsetinn var settur af og ákærður eftir að hann reyndi að koma á herlögum í landinu í desember. Hann á þó enn dómsmál yfir höfði sér en ákvörðun um varðhald yfir honum var felld úr gildi á lagatæknilegum grundvelli.

Reyna að tryggja stöðugleika í Suður-Kóreu

Leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokks Suður-Kóreu, Lee Jae-myung, hefur heitið að vinna með starfandi forseta landsins svo hægt sé að tryggja stöðugleika eftir að forsetanum var vísað frá í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×