Fyrri hálfleikur í leik KA og KR var afar fjörugur. KR-ingar náðu forystunni á 11. mínútu þegar Luke Rae skoraði eftir slæm mistök Ívars Arnar Árnasonar, fyrirliða KA-manna.
Á 24. mínútu jafnaði Ásgeir Sigurgeirsson fyrir KA eftir laglegan undirbúning Bjarna Aðalsteinssonar. Átta mínútum síðar kom Hans Viktor Guðmundsson heimamönnum yfir þegar hann skoraði eftir hornspyrnu.
Á markamínútunni, þeirri 43., jafnaði Jóhannes Kristinn Bjarnason fyrir gestina með góðu langskoti og þar við sat. Lokatölur 2-2. KR-ingar kláruðu leikinn níu en Aron Sigurðarson og Hjalti Sigurðsson voru reknir af velli undir lokin.
Rúnar Már Sigurjónsson tryggði ÍA sigur á Fram á Lambhagavellinum með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á 27. mínútu. Lokatölur 0-1, Skagamönnum í vil.
Á N1-vellinum á Hlíðarenda gerðu svo Valur og Vestri 1-1 jafntefli. Staðan í hálfleik var markalaus en í upphafi seinni hálfleiks skoraði Orri Sigurður Ómarsson, varnarmaður Vals, afar skrautlegt sjálfsmark.
Á 65. mínútu jafnaði danski markahrókurinn Patrick Pedersen metin fyrir Val og tryggði sínum mönnum stig.
Mörkin úr leikjunum þremur má sjá hér fyrir ofan.
Fyrstu umferð Bestu deildarinnar lýkur í kvöld með tveimur leikjum. Víkingur tekur á móti ÍBV klukkan 18:00 á rás Bestu deildarinnar og klukkan 19:15 er komið að leik Stjörnunnar og FH á Stöð 2 Sport 5. Allir sex leikirnir í 1. umferðinni verða svo gerðir upp í Stúkunni klukkan 21:25 á Stöð 2 Sport 5.
Fyrsta umferð Bestu deildar karla
- Laugardagur 5. apríl
- 19:15 Breiðablik 2-0 Afturelding
-
- Sunnudagur 6. apríl
- 14:00 Valur 1-1 Vestri
- 16:15 KA 2-2 KR
- 19:15 Fram 0-1 ÍA
-
- Mánudagur 7. apríl
- 18:00 Víkingur R. - ÍBV (Stöð 2 BD)
- 19:15 Stjarnan - FH (Stöð 2 Sport 5)
- 21:25 Stúkan (Stöð 2 Sport 5