Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í morgun, að hann hefði áhyggjur af stöðu mála á heimsmörkuðum og sagði að til staðar væri hætta á að heimskreppa gæti skollið á.
Daði sagðist deila áhyggjum Ásgeirs af þróuninni.
„Þetta eru atburðir sem við höfum aldrei séð áður eða við þurfum að fara mjög marga áratugi aftur í tímann – og í raun allt annan heim - til þess að sjá eitthvað svipað þannig að ég deili þeim áhyggjum með honum að þetta er ný staða og við þurfum að fylgjast mjög náið með hvernig þróunin verður.“
Hann var þá beðinn um að leggja mat á mögulegt framhald þessarar þróunar sem farin er af stað.
„Það er mjög erfitt að spá um framtíðina. Viðbrögð Kína kölluðu á ný viðbrögð frá Bandaríkjunum, verði meira af því þá vitum við raunverulega ekki hvar þetta endar. Við þessa fyrstu útgáfu sem kom af tollunum var okkar mat að áhrifin á íslenska hagkerfið væru ekki veruleg, ekki beinu áhrifin, en auðvitað ef þetta hægir mjög á hagvexti í heiminum þá eru það aldrei góðar fréttir fyrir lítið og opið hagkerfi,“ sagði Daði Már.
Í dag heldur Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra út til Kaupmannahafnar og í fyrramálið til Brussel til að eiga þar fundi með forsvarsmönnum Evrópusambandsins til að reyna að tryggja stöðu Íslands.
„Við erum náttúrulega hluti af innri markaðnum sem EES og EFTA-land en við erum ekki í tollabandalagi Evrópusambandsins. Ég hef verið í virkum samskiptum við hin löndin sem eru í þessu EFTA bandalagi, Noreg og Liechtenstein og við erum í sameiningu að reyna að koma þeim skilaboðum til skila að ef það verður farið í einhverja allsherjar tolla eða innflutningstakmarkanir hjá Evrópusambandinu að þá verði litið til þess að þrátt fyrir að við séum ekki í tollabandalagi þá séum við virkur hluti af innri markaðnum og að við lendum ekki í þeim tollum þannig að þetta eru skilaboðin sem hafa verið lengi að koma frá okkur og núna erum við að ítreka þau í persónu í Brussel á morgun.“