Viðskipti innlent

Starfs­menn ríkisins þiggja boð ríkisins

Árni Sæberg skrifar
Harpa Jónsdóttir er framkvæmdastjóri LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins.
Harpa Jónsdóttir er framkvæmdastjóri LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins. Aðsend

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins mun ganga að tilboði ríkisins um uppgjör HFF-bréfa, sem mun greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs.

Þann 10. mars síðastliðinn voru lagðar fram tillögur um uppgjör HFF-bréfa til að greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs. Í tillögunum segir meðal annars að í tengslum við uppgjörið muni ríkissjóður gefa út ný ríkisskuldabréf að fjárhæð 540 milljarða króna, þar sem meðal annars verði gerð upp eldri skuld ríkissjóðs við ÍL-sjóð að fjárhæð 238 milljarða króna, auk þess sem ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum ÍL-sjóðs verði gerð upp.

Fjármálaráðuneytið hefur boðað til fundar með kröfuhöfum á morgun þar sem kröfuhafar munu greiða atkvæði um tillögurnar. Hljóti tillögurnar samþykki 75 prósenta kröfuhafa munu þær verða bindandi fyrir alla kröfuhafa, sem eru að langstærstum hluta lífeyrissjóðir.

Í fréttatilkynningu frá LSR segir sjóðurinn hafi yfirfarið tillögurnar vandlega og komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum sjóðfélaga sé best þjónað með því að ganga að tilboðinu. Stjórn LSR hafi því ákveðið á fundi sínum í dag að sjóðurinn muni greiða atkvæði með samþykkt tilboðsins á fundi kröfuhafa á morgun.

Lífeyrissjóður Verzlunarmanna greindi einnig frá því í dag að hann muni ganga að tilboði ríkisins. Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, sagði aftur á móti í viðtali við Viðskiptablaðið á dögunum að sjóðurinn myndi kjósa gegn tillögunum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×