Erlent

Kyrr­setja þyrlu­fyrir­tækið eftir bana­slysið í New York

Kjartan Kjartansson skrifar
Þyrlan hrapar yfir New York á fimmtudag.
Þyrlan hrapar yfir New York á fimmtudag. AP/Bruce Wall

Bandarísk flugmálayfirvöld kyrrsettu þyrlur fyrirtækisins sem átti þyrluna sem fórst með sex manns um borð í New York í síðustu viku. Þau telja að fyrirtækið hafi rekið rekstrarstjóra sinn fyrir að hafa samþykkt að stöðva ferðir á meðan banaslysið er rannsakað.

Spænsk fimm manna fjölskylda og flugmaður fórust þegar þyrla brotnaði í loftinu og hrapaði í Hudsonfljót á fimmtudag. Fólkið var í útsýnisflugi á vegum fyrirtækisins New York Helicopter Tours. Bandaríska flugmálastofnunin gaf út neyðartilskipun sem kyrrsetti þyrlur fyrirtækisins í gær.

AP-fréttastofan segir að tilskipunin hafi verið gefin út eftir að stofnunin komst að því að rekstrarstjóri fyrirtækisins hefði verið rekinn nokkrum mínútum eftir að hann féllst á að stöðva útsýnisferðir á meðan á rannsókn stendur. Grunur leiki á að brottreksturinn hafi verið hefndaraðgerð.

„Flugmálastofnunin grípur til þessara aðgerða að hluta til vegna þess að eftir að rekstrarstjórinn stöðvaði ferðir sjálfviljugur var hann rekinn,“ skrifaði Chris Rocheleau, starfandi forstjóri stofnunarinnar á samfélagsmiðil.

Afturkallaði ákvörðunina um að stoppa sjálfviljug

Rannsókn á banaslysinu stendur nú yfir. Hún beinist meðal annars að því hvort að fyrirtækið hafi farið eftir öllum lögum og reglum og gætt að öryggi. Kafarar hafa þegar fundið hluta af þyrlum vélarinnar sem eru taldir geta varpað frekara ljósi á hvað fór úrskeiðis.

Nokkrum mínútum eftir að rekstrarstjórinn samþykkti að stöðva ferðir fyrirtækisins tímabundið sendi forstjóri þess póst á flugmálastofnunina þar sem hann sagðist ekki hafa gefið leyfi fyrir því. Rekstrarstjórinn væri ekki lengur starfsmaður fyrirtækisins.

Fórnarlömb slyssins voru spænsk hjón og þrjú börn þeirra á aldrinum fjögurra til tíu ára. Þá fórst bandarískur flugmaður þyrlunnar sem var 36 ára gamall fyrrverandi hermaður.


Tengdar fréttir

Sex látnir eftir að þyrla brotlenti í New York

Sex eru látnir eftir að þyrla brotlenti í Hudson-á í New York. Þrír fullorðnir og þrjú börn voru um borð. Eric Adams, borgarstjóri New York-borgar, segir að um hafi verið að ræða spænska ferðamenn. Fimm manna fjölskylda og flugmaður þyrlunnar séu öll látin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×