Íslenski boltinn

„Varst þú ekkert í bláu spurningunum?“

Sindri Sverrisson skrifar
Þóra B. Helgadóttir og Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir voru laufléttar þegar þær fóru yfir fyrstu umferðina í Bestu deildinni og tóku meðal annars þátt í spurningakeppni.
Þóra B. Helgadóttir og Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir voru laufléttar þegar þær fóru yfir fyrstu umferðina í Bestu deildinni og tóku meðal annars þátt í spurningakeppni. Stöð 2 Sport

Það reyndi aðeins á landafræðikunnáttu sérfræðinganna í Bestu mörkunum þegar Helena Ólafsdóttir bauð upp á stutta spurningakeppni í þættinum eftir fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta.

Helena lagði spurningar fyrir þær Þóru B. Helgadóttur og Báru Kristbjörgu Rúnarsdóttur og tengdust spurningarnar nýliðunum í deildinni; Fram og FHL. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkin - Spurningakeppni tengd nýliðunum

FHL er fyrsta liðið frá Austfjörðum til að spila í efstu deild síðan að Höttur spilaði þar árið 1994. Tveimur árum áður voru hins vegar tvö lið af aðeins átta liðum deildarinnar, eða fjórðungur liðanna, að austan og vildi Helena fá að vita nöfnin á þeim.

„Neisti Hofsósi!“ var Bára fljót að skjóta á, að því er virtist sannfærð um að karlaliðið sem Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfaði eitt sinn hefði spilað í efstu deild kvenna. Hún hafði húmor fyrir fljótfærninni í sjálfri sér þegar Þóra leiðrétti hana strax:

„Hofsós er fyrir norðan sko. Varst þú ekkert í bláu spurningunum [landafræðispurningunum í Trivial Pursuit]?“ spurði Þóra létt áður en henni tókst svo sjálfri að koma með rétt svar.

Klippuna má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×