Sport

Atli og Thelma Ís­lands­meistarar í fjölþraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thelma Aðalsteinsdóttir og Atli Snær Valgeirsson fagna Íslandsmeistaratitlunum.
Thelma Aðalsteinsdóttir og Atli Snær Valgeirsson fagna Íslandsmeistaratitlunum. Fimleikasamband Íslands

Atli Snær Valgeirsson og Thelma Aðalsteinsdóttir urðu í dag Íslandsmeistarar i fjölþraut.

Íslandsmótið í áhaldafimleikum fór fram í Laugarbóli, fimleikahöll Ármenninga. Thelma Aðalsteinsdóttir nældi í sinn fjórða Íslandsmeistaratitil í röð, en Atli Snær Valgeirsson var að vinna til síns fyrsta Íslandsmeistaratitils.

Atli Snær gerði sér þar með lítið fyrir og batt enda á átta ára sigurgöngu Valgarðs Reinhardssonar. Valgarð hafði orðið Íslandsmeistari samfleytt frá árinu 2017, en þurfti að sætta sig við annað sæti í dag.

Thelma hefur hins vegar enn tögl og hagldir á Íslandsmeistaratitlinum kvennamegin. Hún hefur nú orðið Íslandsmeistari fjögur ár í röð og er aðeins fimmta konan í sögunni til að gera það fjórum sinnum eða oftar. Thelma Rut Hermannsdóttir (sex Íslandsmeistaratitlar), Sif Pálsdóttir (fimm Íslandsmeistaratitlar), Berglind Pétursdóttir (fimm Íslandsmeistaratitlar) og Elva Rut Jónsdóttir (fjórir Íslandsmeistaratitlar) hafa einnig orðið Íslandsmeistarar fjórum sinnum eða oftar.

Úrslit í fjölþraut kvenna:

1. Thelma Aðalsteinsdóttir, Gerpla 49.800

2. Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Gerpla 49.000

3. Kristjana Ósk Ólafsdóttir, Gerpla 46.150

Úrslit í fjölþraut karla:

1. Atli Snær Valgeirsson, Gerplu 72.750

2. Valgarð Reinhardsson, Gerplu 72.550

3. Dagur Kári Ólafsson, Gerplu 72.400




Fleiri fréttir

Sjá meira


×