Handbolti

Gísli Þor­geir skaut Mag­deburg á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir var magnaður í kvöld.
Gísli Þorgeir var magnaður í kvöld. Andreas Gora/Getty Images

Magdeburg er komið áfram í Meistaradeild Evrópu karla í handbolta eftir eins marks sigur ytra gegn Veszprém. Íslendingar voru í aðalhlutverki í báðum liðum.

Fyrri leik liðanna lauk með jafntefli og því var gríðarlega spenna fyrir leik kvöldsins. Hann olli engum vonbrigðum. Það var allt í járnum líkt og í fyrri leiknum, staðan í hálfleik 13-13.

Um tíma stefndi í að Bjarki Már Elísson og félagar í Veszprém væru á leið áfram en þeir leiddu með fjórum mörkum þegar rétt rúmar tíu mínútur voru eftir. Felix Claar tók þá leikinn og skoraði þrjú mörk í röð er Magdeburg skoraði fimm mörk án svars frá heimamönnum. Alls skoraði Claar fjögur af mörkunum fimm.

Bjarki Már Elísson jafnaði metin fyrir heimamenn og staðan orðin jöfn 27-27. Á þeim tímapunkti voru gestirnir á leið áfram á fleiri mörkuðum skoruðum á útivelli. Gísli Þorgeir Kristjánsson gulltryggði hins vegar sigurinn og sætið í undanúrslitum með sigurmarki leiksins þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka, lokatölur 27-28.

Gísli Þorgeir skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar í leiknum. Enginn kom með beinum hætti að fleiri mörkum en Hafnfirðingurinn. Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar.

Bjarki Már skoraði fjögur mörk í liði Veszprém og var með 100 prósent skotnýtingu.

Magdeburg er komið í undanúrslit ásamt Nantes frá Frakklandi og Füchse Berlín frá Þýskalandi. Síðar í kvöld kemur í ljós hvort Janus Daði Smárason og félagar Pick Szeged eða stórlið Barcelona verði fjórða liðið inn í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×