Körfubolti

„Verið að kveðja góðan mann með mjög glæstan feril“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson lék í rúm tuttugu ár í meistaraflokki.
Hörður Axel Vilhjálmsson lék í rúm tuttugu ár í meistaraflokki. vísir/diego

Hörður Axel Vilhjálmsson lék sinn síðasta leik á ferlinum þegar Álftanes tapaði fyrir Tindastóli í gær. Eftir leikinn fóru sérfræðingar Bónus Körfuboltakvölds yfir feril Harðar Axels.

Stólarnir unnu leikinn í Kaldalónshöllinni á Álftanesi í gær, 90-105, og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaeinvíginu. Eftir leikinn tilkynnti Hörður Axel í viðtali að hann væri hættur í körfubolta.

Strákarnir í Bónus Körfuboltakvöldi fóru yfir feril Harðar Axels og mærðu þennan stoðsendingahæsta leikmann í sögu efstu deildar á Íslandi.

„Hann á glæsilegan feril. Hann hlýtur að gera hann upp þannig, að hann hafi staðið sig mjög vel og áorkað heilan helling. Hann getur skilið sáttur við þetta og ég sagði honum einfaldlega að njóta þess sem er framundan. Ég vona bara, hvenær sem það verður, að hann komi aftur inn í körfuboltaheiminn aftur, í einhverju hlutverki,“ sagði Helgi Már Magnússon sem lék með Herði Axel í landsliðinu, meðal annars á EM 2015.

Arnar Guðjónsson var um tíma aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins og þekkir Hörð Axel vel.

„Það kemur alltaf að þessu á endanum en hann á frábæran feril. Hann spilar víða í Evrópu. Hann er leikstjórnandi landsliðsins á báðum stórmótunum sem það hefur farið á þannig að það er verið að kveðja góðan mann með mjög glæstan feril,“ sagði Arnar.

„Umræðan hefur oft litast af því að hann á ekki titil á Íslandi en hann hefur unnið Pro A í Þýskalandi og unnið það að lið fari tvisvar á stórmót sem hafði aldrei gerst áður. Það er eitthvað sem menn geta verið stoltir af og ekki margir sem hafa náð því.“

Hér á landi lék Hörður Axel með Fjölni, Njarðvík, Keflavík og Álftanesi. Hann lék einnig á Spáni, í Þýskalandi, Grikklandi, Tékklandi, Belgíu, Ítalíu og Kasakstan. Hörður Axel lék 86 leiki fyrir íslenska landsliðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×