Viðskipti innlent

Sjó­vá fundaði með PPP en af­þakkaði þjónustu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár segir að sér hafi verið brugðið við að félagið hafi verið bendlað við PPP. Sjóvá hafi átt einn fund með félaginu og ekki keypt neina þjónustu.
Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár segir að sér hafi verið brugðið við að félagið hafi verið bendlað við PPP. Sjóvá hafi átt einn fund með félaginu og ekki keypt neina þjónustu. Vísir

Tryggingafyrirtækið Sjóvá hefur staðfest að PPP hélt kynningu fyrir starfsfólk félagsins á sama tíma og fyrirtækið vann að rannsókn á fyrrum eigendum og stjórnendum Sjóvár fyrir sérstakan saksóknara. Samkvæmt yfirlýsingu frá Sjóva fjallaði kynning PPP um hvort það gæti aðstoðað við rannsókn mögulegra tryggingasvika.

Fram hefur komið að Ólaf Þór Hauksson þá sérstakur saksóknari réð fyrirtækið PPP í verkefni í janúar og febrúar árið 2012. Fyrirtækið var í eigu fyrrverandi starfsmanna hans sem hann kærði svo sama ár fyrir brot á þagnaskyldu. Ríkissaksóknari felldi málið niður átta mánuðum síðar og sagði málið ekki líklegt til sakfellingar.

„Þeir voru alla vega að vinna með þessa Sjóvákæru og inn í það tengdist Milestone. Nú hefur komið í ljós eftir þessa opinberun að þeir voru að reyna að búa til einhvers konar samninga við Sjóvá á sama tíma. Ég reikna bara með að þær rannsóknir sem að nú fara af stað fari vel ofan í saumana á öllum þáttum málsins,“ sagði Ólafur Þór Hauksson í samtali við fréttastofu vegna málsins um helgina.

Ekkert óeðlilegt við kynningu PPP

Fram kom í þætti Kastljóss í síðustu viku að forsvarsmenn PPP, Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Haukur Gunnarsson, hefðu hitt starfsfólk Sjóvá í janúar 2012. Í kynningunni hafi komið fram að starfsmenn Sjóvár hafi fyrir fundinn afhent PPP kennitölur einstaklinga. Tvímenningarnir hafi síðan kannað gögnin og gefið Sjóvá upplýsingar. Þá kemur fram að í kynningunni sé að finna trúnaðargögn með viðkvæmum persónuupplýsingum úr stórum sakamálarannsóknum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem tvímenningarnir tóku þátt í nokkrum árum fyrr.

Í yfirlýsingu frá Sjóvá vegna málsins er staðfest að umræddur fundur hafi átt sér stað 20. janúar 2012. Í yfirlýsingu Sjóvár kemur fram að PPP hafi haft samband að fyrra bragði og efni fundarins hafi verið að PPP menn kynntu mögulega þjónustu sína vegna kortlagningar á tryggingasvikum. Sjóvá hafi ekki verið kunnugt um ólögmæta starfshætti fyrirtækisins, fyrr en eftir umfjöllun RÚV í síðustu viku. Kynningin sem sýnd var í Kastljósi sé ekki í vörslu Sjóvár og virðist hún ekki hafa verið send fyrirtækinu.

Í umræddu tilviki sem fjallað var um í þætti Kastljóss hafði starfsmanni Sjóvá borist utanaðkomandi ábending um möguleg tryggingasvik og snerist kynningin þann 20. janúar 2012 um hvort PPP gæti aðstoðað við rannsókn slíkra mála. Í tilkynningunni er bent á að að samkvæmt lögum um persónuvernd árið 2012 hafi vinnsla persónuupplýsinga, með aðstoð þriðja aðila, verið heimil væri hún nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna tryggingafélagsins. Sjóvá hafi svo ekki keypt þjónustu af PPP og ekkert framhald hafi verið á málinu.

Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár segist hafa verið nýtekinn við félaginu þegar umræddur fundur við PPP fór fram. Hann hafi ekki verið viðstaddur fundinn heldur aðrir starfsmenn félagsins. Fundurinn hafi verið að frumkvæði PPP. Hann segir starfsfólk hjá sér ekki reka minni til þess að hafa fengið trúnaðargögn úr viðkvæmum sakamálarannsóknum lögreglu. 

„Nei það er engan sem rekur minni til þess og ég stórefast að þeir hafi vísað til þess. Því þar með hefðu þeir verið að opinbera sig. Þannig að ég tel afar hæpið að þeir hafi gert það á umræddum fundi, án þess að ég hafi hugmynd um það,“ segir Hermann. 

Hermann segist ekki hafa upplýsingar um hvort að þeir starfsmenn Sjóvár sem hittu eigendur PPP hafi á sama tíma verið að vinna fyrir sérstakan saksóknara í rannsókna á fyrrverandi stjórnendum og eigendum Sjóvá. 

„Ég efast um það en ég bara veit það ekki,“ segir Hermann. Rannsókn saksóknara á Sjóvá var svo hætt árið 2014.

„Mér var brugðið við að núverandi félag hafi verið bendlað við þetta þannig að höfðum heilmikið fyrir því að grafast fyrir um staðreyndir málsins þannig að það er það sem kemur fram fréttatilkynningu okkar um málið,“ segir Hermann og áréttar að fundurinn hafi verið að frumkvæði PPP. 

Að neðan má sjá yfirlýsinguna frá Sjóvá í heild.


Yfirlýsing frá Sjóvá:

Eftir umfjöllun í Kastljósi þann 7. maí 2025, hófumst við strax handa við að finna upplýsingar um samskipti starfsmanna okkar og umrædds fyrirtækis frá árinu 2012.

Sjóvá keypti ekki þjónustu af fyrirtækinu PPP samkvæmt okkar gögnum. Við getum hins vegar staðfest að fyrirtækið hélt kynningu þann 20. janúar 2012 fyrir nokkra starfsmenn Sjóvá, eins og fram kom í þætti Kastljóss. Efni fundarins var „PPP menn kynna fyrir okkur mögulega þjónustu vegna kortlagningar á tryggingasvikum“. PPP hafði samband af fyrra bragði og óskaði eftir tækifæri til að kynna þjónustu sína.

Sem fyrr segir leiddi þessi fundur fyrir 13 árum ekki til kaupa á þjónustu eða frekari samskipta sem málið varðar, samkvæmt gögnum okkar. Sjóvá hefur ekki kynninguna sem rætt var um í Kastljósi í sínum fórum og virðist hún ekki hafa verið send félaginu. Sjóvá var ekki kunnugt um ólögmæta starfshætti fyrirtækisins, fyrr en eftir umfjöllun RÚV.

Árið 2012 hafði ekki verið tekinn í notkun sameiginlegur tjónagrunnur tryggingafélaganna sem nýst getur ef grunur vaknar um skipulögð tryggingasvik. Skipulögð svik komu þó upp á þessum tíma, líkt og nú. Sjóvá ber skylda til að rannsaka tryggingasvik leiki grunur á um slíkt. Í umræddu tilviki sem fjallað var um í þætti Kastljóss hafði starfsmanni Sjóvá borist utanaðkomandi ábending um möguleg tryggingasvik og snerist kynningin þann 20. janúar um hvort umrætt fyrirtæki gæti aðstoðað við rannsókn slíkra mála.

Samkvæmt lögum um persónuvernd, sem í gildi voru árið 2012, var vinnsla persónuupplýsinga, þ.m.t. með aðstoð þriðja aðila, heimil væri hún nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna tryggingafélagsins. Persónuvernd hefur staðfest í úrskurðum sínum að tryggingafélög hafi lögmæta hagsmuni af slíkri vinnslu.

Mikilvægt er fyrir almenning að Sjóvá, og önnur tryggingarfélög, vinni að því að stemma stigum við tryggingasvikum, m.a. með tilkynningum til lögreglu. Sameiginlegur tjónagrunnur tryggingafélaganna sem tekinn var í notkun árið 2018, að erlendri fyrirmynd, er mikilvægur þáttur í að upplýsa og koma í veg fyrir slíka glæpi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×