Enski boltinn

Awoniyi sofandi á gjör­gæslu og gengst undir aðra að­gerð í dag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Taiwo Awoniyi varð fyrir alvarlegum meiðslum í kviðarholi síðasta sunnudag.
Taiwo Awoniyi varð fyrir alvarlegum meiðslum í kviðarholi síðasta sunnudag. Marc Atkins/Getty Images

Taiwo Awoniyi hefur verið haldið sofandi á gjörgæsludeild eftir að hann gekkst undir aðgerð á mánudagskvöld, eftir að hafa orðið fyrir alvarlegum meiðslum í kviðarholi á sunnudag, þegar hann klessti á stöngina í leik gegn Leicester. Awoniyi mun gangast undir seinni hluta aðgerðarinnar í dag.

Nottingham Forest sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem sagt var að bataferli Awoniyi gengi vel og eftir áætlun. Þá var minnt á hætturnar sem geta fylgt því að spila fótbolta og tekið fram að meiðslin hefðu verið ástæða þess að eigandi félagsins, Evangelos Marinakis, fór inn á völlinn eftir leik og átti í orðaskiptum við þjálfarann Nuno Espirito Santos. Hann hafi ekki gert það vegna slæmra úrslita eins og haldið var fram í fjölmiðlum upphaflega.

Facundo Buonanotte og Taiwo Awoniyi skullu saman og sá síðarnefndi vafðist utan um stöngina. Jacob King/PA Images via Getty Images

Atvikið átti sér stað á 88. mínútu leiksins gegn Leicester, sem endaði með 2-2 jafntefli. Awoniyi reyndi þá að ná til fyrirgjafar frá Anthony Elanga, með þeim afleiðingum að hann skall saman við stöngina.

Anthony Elanga var klárlega rangstæður en línuvörðurinn beið með að lyfta flagginu svo Forest gæti klárað sóknina, eins og reglur segja til um. Þær reglugerðir hafa áður sætt gagnrýni, sökum meiðslahættu, og gera það enn frekar núna þegar þær hafa leitt af sér alvarleg meiðsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×