Innlent

Fljúgandi trampólín fauk á bíla í Grafar­vogi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Grafarvogur.
Grafarvogur. Vísir/Vilhelm

Tilkynnt var um fljúgandi trampólín sem hafði fokið á tvo bíla á ferðalagi um Grafarvog í dag. Ráðstafanir voru gerðar til að koma í veg fyrir frekara tjón.

Þetta er meðal verkefna dagsins sem tíunduð eru í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að umferðarslys hafi orðið í Árbæ þar sem bifreið með eftirvagn snerist á akbrautinni. Skemmdir hafi orðið bílnum, eftirvagni og vegriði og sandur hafi dreifst um akbrautina.

Ökumaðurinn var kærður fyrir að aka án gildra réttinda.

Nokkrir ökumenn voru kærðir vegna nagladekkjanotkunar og eiga þeir von á tugum þúsunda í sektir.

„Lögregla hvetur alla umráðamenn ökutækja til að losa sig við naglana í staðinn fyrir að skora það fjárhagslega sjálfsmark að borga sekt sem er oft á tíðum dýrari en nýr umgangur af hjólbörðum,“ segir í færslu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×