Fótbolti

„Sorg­mædd yfir þessari þróun sem hefur átt sér stað hjá Val“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mist Edvardsdótrir og Mist Rúnarsdóttir eru sérfræðingar í Bestu mörkum kvenna.
Mist Edvardsdótrir og Mist Rúnarsdóttir eru sérfræðingar í Bestu mörkum kvenna.

Valur tapaði 4-0 fyrir Breiðabliki í Bestu deild kvenna á föstudagskvöld. Helena Ólafsdóttir og sérfræðingarnir úr Bestu mörkum kvenna ræddu stöðuna á Valsliðinu.

Breiðablik og Valur eru liðin sem flestir bjuggust við að myndu berjast um Íslandsmeistaratitilinn í Bestu deild kvenna í sumar en byrjun Valsliðsins hefur komið mörgum á óvart. Valur hefur tapað þremur af fyrstu sex leikjum tímabilsins og tapaði 4-0 fyrir Breiðablik á föstudagskvöldið.

Helena Ólafsdóttir, Mist Edvardsdóttir og Mist Rúnarsdóttir ræddu stöðuna á Valsliðinu í Bestu mörkum kvenna.

„Mér finnst svo erfitt að tala um þetta því ég er hálf sorgmædd yfir þessari þróun sem hefur átt sér stað undanfarna mánuði hjá Val,“ sagði Mist Edvardsdóttir.

„Það eru teknir burtu tveir gríðarlega skapandi leikmenn í Amöndu [Andradóttur] og Katie Cousins en það er þá bara ábyrgð liðsins, þjálfara og félagsins að leysa það. Gerir þú það með því að sækja efnilegustu leikmenn landsins sem eru ekki með reynslu í þessari deild eða með því að borga Katie Cousins almennilegan pening?“ bætti Mist Rúnarsdóttir við.

Klippa: Umræða um lið Vals

Mist Edvardsdóttir ræddi einnig hvaða skilaboð væru að koma frá stjórn Vals til kvennaliðsins.

„Mér finnst skilaboðin sem eru að koma frá toppnum innan Vals, stjórn og þjálfurum, skilaboð til liðsins. Í fyrsta lagi í haust þegar er ekki endursamið við Pétur Pétursson, sigursælasta þjálfara Vals frá upphafi. Það er tekin ákvörðun um það og að breyta til.“

„Svo losa þeir Berglindi [Björgu Þorvaldsdóttur], semja ekki við Katie Cousins. Valur blandar sér ekki einu sinni í baráttuna um Þórdísi Elvu [Ágústsdóttur] og hún var síðast í Val,“ bætti Mist við og umræða þremenninganna um Val hélt áfram.

Alla umræðu þeirra Helenu og Mistanna tveggja má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×