Innlent

„Þetta fór eins vel og kostur var“

Jón Þór Stefánsson og Telma Tómasson skrifa
Mynd frá björgunaraðgerðunum.
Mynd frá björgunaraðgerðunum. Landsbjörg

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunaraðgerðir, sem farið var í þegar farþegabátur tók niðri við Ögurvík í Ísafjarðardjúpi, hafi farið eins vel og kostur var.

„Aðgerðum er að mestu leyti lokið núna. Það eru allir farþegar komnir í land í Súðavík. Það er verið að keyra þá til Ísafjarðar þar sem Rauði krossinn tekur á móti þeim og veitir aðstoð ef menn vilja. Þetta fór eins vel og kostur var,“ segir Jón Þór í samtali við fréttastofu.

Frá Ísafirði eftir hádegið í dag. Hafþór Gunnarsson

Útkall barst um málið rétt fyrir klukkan tólf og var hópslysaáætlun virkjuð vegna fjölda farþega, en 49 manns voru um borð. Fram hefur komið að farþegarnir voru að mestu erlendir ferðamenn sem eru í ferð á vegum skemmtiferðaskips sem liggur við höfn á Ísafirði.

Er vitað hvað gerðist þarna?

„Nei, eða ég veit það allavegana ekki. Við vitum hvað við vorum að fást við. Við þurftum bara að sækja þessa farþega og koma skipinu á flot aftur. Það hefur verið gert.“

Hafþór Gunnarsson

Jón Þór segist ekki vera í stöðu til að leggja mat á það hvort þarna hafi fólk verið hætt komið.

„En mér skilst að veður hafi verið gott og aðstæður þannig að það hafi ekki verið mikil hætta á ferðum. Þetta snerist bara um að létta það, og það var gert með því að færa farþega um borð í aðra báta. Þá var hægt að draga skipið á flot.“

Mynd frá vettvangi.Landsbjörg

Veistu hvort að mannskapurinn hafi orðið skelkaður?

Nei, ég þekki það nú ekki, en örugglega einhverjir. Þetta er kannski ekki lífsreynsla sem margir lenda oft í þannig það kæmi mér ekki á óvart.“

Farþegarnir eru komnir til Íslands um borð í þessu skemmtiferðaskipi við hafnarbakkann á Ísafirði.Hafþór Gunnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×