Fótbolti

Pepe Reina leggur hanskana á hilluna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Pepe Reina mun spila sinn síðasta leik næsta föstudag.
Pepe Reina mun spila sinn síðasta leik næsta föstudag. Marco Luzzani/Getty Images

Pepe Reina, hinn 42 ára gamli markvörður, hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna eftir tæplega þrjá áratugi sem atvinnumaður í fótbolta. Hann mun spila sinn síðasta leik með Como í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar næsta föstudag.

Como mætir Inter, sem getur orðið Ítalíumeistari, í lokaumferðinni. Reina sat á bekknum í síðasta leik en spilaði þarsíðasta leik og hefur spilað 11 af 37 leikjum liðsins hingað til á tímabilinu.

Reina tilkynnti á samfélagsmiðlum í dag að leikurinn yrði sá síðasti á hans langa ferli.

Pepe Reina er uppalinn í akademíu Barcelona, þar sem hann spilaði sína fyrstu leiki tímabilið 1999-2000. 

Hann fór frá Barcelona til Villareal en fluttist síðan til Liverpool árið 2005 og lék með liðinu í níu ár. Fyrstu þrjú tímabilin þar vann hann gullhanskann þrisvar, FA bikarinn og deildabikarinn.

Bestu árin á ferli Reina voru hjá Liverpool. Myndir/Nordic Photos/Getty

Hann var einnig hluti af spænska landsliðinu sem varð Evrópumeistari tvisvar og heimsmeistari frá 2008-12.

Alls spilaði hann 394 leiki fyrir Liverpool áður en hann fór frá félaginu 2014. Síðan þá hefur hann spilað fyrir Bayern Munchen, Napoli, AC Milan, Aston Villa, Lazio, Villareal og að lokum Como.

Alls á hann að baki yfir 708 leiki á 26 ára löngum ferli og 36 A-landsleiki fyrir Spán.

Pepe Reina í æfingabúðum spænska landsliðsins á HM 2010. Nordic Photos / AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×