Fótbolti

Vann meistarana í gær og valin í lands­liðið í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson hefur kallað Örnu Eiríksdóttur inn í landsliðið.
Þorsteinn Halldórsson hefur kallað Örnu Eiríksdóttur inn í landsliðið. vísir/guðmundur þórlaugarson

Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, hefur verið kölluð inn í íslenska fótboltalandsliðið fyrir leikina gegn Noregi og Frakklandi í Þjóðadeildinni.

Arna kemur inn í íslenska hópinn í stað Amöndu Jacobsen Andradóttur sem er meidd.

Arna og stöllur hennar í FH unnu Íslandsmeistara Breiðabliks, 2-1, í Kaplakrika í gær.

FH er í 3. sæti Bestu deildarinnar með sextán stig eftir sjö leiki. Liðið hefur aðeins tapað einum leik. Arna hefur leikið alla sjö deildarleiki FH og skorað tvö mörk.

Arna, sem er 22 ára varnarmaður, hefur leikið tvo A-landsleiki; vináttuleiki gegn Eistlandi 2022 og Austurríki 2023.

Eldri systir Örnu, Hlín, er einnig í landsliðshópnum. Hún hefur leikið 47 landsleiki og skorað sex mörk.

Ísland mætir Noregi í Þrándheimi 30. maí og Frakklandi á Laugardalsvelli 3. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×