Innlent

Nýr meiri­hluti komi ekki til greina

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
F49FCAD42F7A7B806A891156369F92FD848CB2012D33340BB1D2E0C22148769C_713x0
aðsend

Oddviti Í-listans sem var með eins manns meirihluta áður en hann féll á þriðjudag segir það útilokað að nýr meirihluti verði myndaður í bæjarstjórn. Andinn í bæjarstjórn sé góður þrátt fyrir væringar. 

Meirihluti Ísafjarðarbæjar féll á þriðjudag eftir að Þorbjörn H. Jóhannesson sem var hjá Í-listanum ákvað að hætta að styðja meirihlutann. Ástæðuna sagði Þorbjörn vera framkomu sumra starfsmanna listans í hans garð. Þorbjörn hafði þá verið í meirihlutanum í aðeins þrjá mánuði en hann tók við sæti í bæjarstjórn af Örnu Láru Jónsdóttur, þáverandi bæjarstjóra, sem tók sæti á þingi fyrir Samfylkinguna í lok nóvember.

Gylfi Ólafs­son, odd­viti Í-list­ans í Ísa­fjarðarbæ, segir góðan anda vera til staðar þrátt fyrir væringar vikunnar.

„Það er auðvitað leiðinlegt að missa Þorbjörn en það er mjög góður samstarfsandi bæði innan meirihlutans og við hina flokkana.“

Í-listinn var áður með eins manns meirihluta í bænum en Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru í minnihluta. Gylfi segir það útilokað að nýr meirihluti verði myndaður.

„Í bæjarstjórn verður meirihlutinn óbreyttur en það liggur fyrir svona munnlegt samkomulag um að bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn munu styðja núverandi meirihluta. Það verða einhverjar smávægilegar stólabreytingar í kringum það. Stóru embættin verða þó óbreytt. Formaður bæjarráðs og bæjarstjórinn verður sá sami.“

Stefnuyfirlýsing bæjarstjórnar verður því sú sama næsta árið fram að sveitastjórnarkosningum og starfsemin mun að mestu ganga sinn vanagang.

„Það er þannig að það hefur verið mjög góður samhljómur í bæjarstjórninni síðustu þrjú ár. Við höfum vissulega verið að vinna eftir stefnuyfirlýsingu Í-listans en við höfum komið til móts við óskir, hugmyndir og ábendingar Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna. Þetta hefur gengið bara mjög vel og mun halda áfram að ganga mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×