Handbolti

„Hefði ekki verið hægt að skrifa þennan endi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
ÁGúst Jóhannsson stýrði kvennaliði Vals í síðasta sinn í kvöld. Hann kveður liðið með Íslands-, deildar- og Evrópubikarmeistaratitli.
ÁGúst Jóhannsson stýrði kvennaliði Vals í síðasta sinn í kvöld. Hann kveður liðið með Íslands-, deildar- og Evrópubikarmeistaratitli. Vísir/Ernir

„Þetta eru auðvitað búin að vera frábær átta ár,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, fráfarandi þjálfari Vals, eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitil kvenna í handbolta í kvöld.

Í vetur var greint frá því að þetta yrði síðasta tímabil Ágústs sem þjálfari kvennaliðs Vals, en hann tekur við karlaliðinu í haust. Óhætt er að segja að Ágúst hætti á toppnum, en Valskonur urðu Íslands- og deildarmeistarar á tímabilinu, ásamt því að verða fyrsta íslenska kvennaliðið til að vinna Evróputitil þegar liðið vann Evrópubikarinn á dögunum.

„Að enda þetta svona. Það hefði ekki verið hægt að skrifa þennan endi. Að enda sem Evrópu- og deildarmeistarar og taka svo úrslitakeppnina og sópa öllum liðunum þar út. Ég er bara hrærður yfir þessu. Þetta er algjörlega magnað og ég er ótrúlega stoltur af þessu liði og þessum leikmönnum og því sem við höfum byggt upp hérna. Ég hlakka bara til að fygljast með þessu liði í framtíðinni.“

Hann segir það þó sitja í sér að hafa ekki náð að klára bikarmeistaratitilinn á tímabilinu.

„Auðvitað ætluðum við að vinna bikarinn líka. En við vorum akkúrat að koma úr mjög erfiðu prógrammi þá þar sem við vorum búin að vera í Evrópukeppninni. Ég man að það vantaði svolítið upp á orkuna hjá okkur. Haukar unnu það bara og áttu það skilið, enda með frábært lið.“

Þá segir Ágúst að leikur kvöldsins hafi unnist á því að hans konur héldu ró sinni, þrátt fyrir sterka byrjun Hauka.

„Haukarnir byrjuðu mjög vel, en við náðum að halda ákveðinni yfirvegun. Það var ekkert stress eða hræðsla við að tapa. Svo náum við ágætis tökum á leiknum og svo fannst mér við bara sannfærandi. Mér finnst við vera búin að spila frábæran handbolta. Erum að skora á mjög fjölbreyttan hátt og stelpurnar eru að spila þetta ótrúlega vel. Takturinn á liðinu er frábær. Það eru mörg ár síðan ég hef séð kvennalið spila jafn vel og Valsliðið er búið að spila stóran part af þessu tímabili.“

„Við erum bara búin að leysa það, sama hvort þær spila 3:3 vörn eða 5:1 eða 6:0. Við leystum það vel og ég er bara hrikalega ánægður með frammistöðuna og þakklátur fólkinu sem mætti hérna. Það var flott mæting hjá Völsurum og ég er bara hrikalega ánægður að kveðja við liðið á þennan hátt og óska þeim góðs gengis á næsta ári.“

Að lokum segist Ágúst ekki hafa neinar áhyggjur af Valsliðinu undir nýrri stjórn, en Anton Rúnarsson tekur nú við sem aðalþjálfari.

„Þær verða bara feykilega öflugar á næsta ári. Mariam er að koma inn í þetta og ungar stelpur, mjög efnilegar, sem eru að koma inn. Liðið verður frábært og það verður gaman að fylgjast með þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×