Handbolti

„Því­lík veg­ferð sem þetta er búið að vera“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lovísa Thompson skoraði fimm mörk í kvöld.
Lovísa Thompson skoraði fimm mörk í kvöld. Vísir/Ernir

„Ég veit bara ekki hvar ég á að byrja,“ sagði Lovísa Thompson, leikmaður Vals, eftir að liðið tryggði sér sinn þriðja Íslandsmeistaratitil í röð í kvöld.

„Þetta er búið að vera ótrúlega langt og strangt tímabil og við erum búnar að vera að spila mjög þétt í allan vetur. Þvílíkur stígandi í hópnum,“ bætti Lovísa við.

Hún segir einnig að þetta hafi verið fínasta leið til að kveðja þjálfarann Ágúst Þór Jóhannsson, sem tekur við þjálfun karlaliðs Vals í haust, en liðið varð Íslands-, deildar- og Evrópubikarmeistari á tímabilinu.

„Jú, ég held það og ég held að hann hefði ekki getað fengið mikið betri endi. Hann er örugglega mjög ánægður og þvílík vegferð sem þetta er búið að vera. Að halda þessum stöðugleika í svona mörg ár - bara kudos á hann - hann er bara frábær.“

Lovísa er þó sammála Ágústi í því að það sitji í þeim að hafa misst af bikarmeistaratitlinum í ár.

„Ég er reyndar pínu sammála honum þar. Það var kannski okkar eini leikur, fyrir utan kannski tvo deildarleiki, þar sem við vorum bara ekki alveg með þetta. Það er bara stutt á milli í þessu og því fór sem fór.“

Varðandi leik kvöldsins segir hún að Valsliðið hafi náð að finna svör við því sem Haukarnir gerðu.

„Mér fannst við bara vera aðeins áræðnari og finna einhvern aukakraft. Ég held að við hefðum ekki nennt að fara í annan leik þannig að ég er frekar ánægð með að við höfum fundið innri styrk og vilja til að klára þetta hér í kvöld á okkar heimavelli.“

„Mér finnst við alltaf halda áfram þó svo að það gangi ekki alltaf allt upp. Við finnum ró og erum að fylgja skipulagi. Þetta er allt vel æft og við erum með okkar hluti á hreinu. Þó svo að það gangi ekki upp þá reynum við að laga það hinum megin á vellinum. Þetta er bara ein sókn í einu og ein vörn í einu. Þetta er bara agað skipulag.“

Að lokum vildi Lovísa ekki gera of mikið úr komandi fagnaðarlátum Vals í kvöld.

„Guð minn góður. Við ætlum bara að fagna þessu vel, en maður er samt alveg dauðþreyttur. Ég er bara ótrúlega ánægð,“ sagði Lovísa að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×