Fótbolti

„Verður gríðar­lega stór stund fyrir mig“

Aron Guðmundsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er hundrað prósent klár í slaginn við Finna í dag
Glódís Perla Viggósdóttir er hundrað prósent klár í slaginn við Finna í dag vísir/Anton

Lands­liðs­fyrir­liðinn Glódís Perla Viggós­dóttir mun feta nýjan stíg í dag er hún leiðir ís­lenska lands­liðið inn á völlinn í fyrsta skipti á stór­móti. Hún segir að um stóra stund fyrir sig sé að ræða.

Ís­land hefur veg­ferð sína á EM í fót­bolta í borginni Thun í Sviss í dag með fyrsta leik mótsins gegn Finn­landi í A-riðli. Mikilvægur leikur fram­undan sem getur, þrátt fyrir að vera aðeins fyrsti leikur liðanna, haft afar mikið að segja upp á fram­haldið í mótinu.

Það dylst engum hversu of­boðs­lega mikilvæg Glódís Perla er ís­lenska lands­liðinu. Henni fylgir ein­hver festa og ró í hjarta varnarinnar sem smitar síðan út frá sér um gjör­vallt liðið.

Um tíma voru uppi spurningar­merki varðandi þátt­töku Glódísar Perlu á EM. Krefjandi meiðsli, beinmar í hné, gerðu vart um sig á síðasta tíma­bili og héldu henni frá um hríð.

Að­spurð um stöðuna á sér fyrir fyrsta leik sagðist Glódís vera full­kom­lega heil heilsu.

Þannig að þú lítur þannig á það að meiðslin séu frá?

„Já,“ var stutt og sann­færandi svar frá fyrir­liðanum.

Þrátt fyrir að búa að mikilli reynslu með bæði félags- og lands­liði er Glódís að fara upp­lifa eitt­hvað nýtt í dag. Jú hún hefur leitt ís­lenska lands­liðið inn á völlinn í ófáum leikjum, þekkir um­hverfið út og inn með sína 137 A-lands­leiki en aldrei hefur hún leitt ís­lenska liðið inn á völlinn á stór­móti.

„Það verður gríðar­lega stór stund fyrir mig að fá að leiða þennan frábæra hóp út í þetta mót. Ég er gríðar­lega spennt fyrir því og auðvitað er maður þá bara extra þakk­lát fyrir að fá að vera hérna og fá að gera þetta. Fá þessa ábyrgð sem fylgir því að gera það. Hópurinn er bara svo gríðar­lega sterkur og frábær, við erum með mikið af leið­togum innan okkar raða líka þótt að þær beri ekki bandið. Ég er bara mjög spennt fyrir þessu móti.“

Leikur Ís­lands og Finn­lands hefst klukkan fjögur og verður lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan er hægt að finna alla um­fjöllun Vísis og Sýnar um mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×