Erlent

Boðar arf­taka Dalai Lama

Kjartan Kjartansson skrifar
Dalai Lama er gamall í hettunni. 
Dalai Lama er gamall í hettunni.  AP/Ashwini Bhatia

Dalai Lama, trúarlegur leiðtogi Tíbeta, tilkynnti í dag að eftirmaður hans yrði fundinn að honum gengnum. Hann hafði áður gefið til kynna að mögulega yrði hann síðasti maðurinn til þess að gegna hlutverkinu.

Samkvæmt tíbetskri búddistatrú endurholdgast Dalai Lama. Trúarleiðtoginn, sem verður níræður á sunnudaginn, sagði í dag að finna ætti næsta Dalai Lama og viðurkenna hann sem arftaka sinn, að sögn AP-fréttastofunnar. Kínverjar ættu ekki að koma nálægt því að finna næsta Dalai Lama.

Kommúnistastjórnin í Kína hefur ítrekað fullyrt að hún hafi ein vald til þess að tilnefna næsta trúarleiðtoga Tíbeta. Hann þurfi að finna í tíbetskum hlutum Kína til þess að tryggja yfirráð kommúnistastjórnarinnar yfir valferlinu.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins ítrekaði þetta í dag þegar hann sagði að endurholdgun Dalai Lama yrði að vera á forsendum Kína og sæta samþykki miðstjórnar kommúnistaflokksins.

Togstreita á milli kínverskra stjórnvalda og tíbetskra munka sem eru hliðhollir núverandi Dalai Lama er sögð gera það líklegt að þeir verði tveir eftir andlát hans.

Kínverjar innlimuðu Tíbet árið 1951. Dalai Lama fór í útlegð eftir uppreisn Tíbeta árið 1959 og stýrði sjálfskipaðri ríkisstjórn Tíbet í útlegð til ársins 2011. Hann hefur hvatt fylgjendur sína til þess að hafna Dalai Lama sem Kínverjar velji.

Mannréttindasamtökin Amnesty International sögðu í yfirlýsingu í dag að tilraunir kínverskra stjórnvalda til þess að stýra vali á næsta Dalai Lama væru bein árás á trúfrelsi Tíbeta.

Núverandi Dalai Lama er sá fjórtándi í röðinni. Hann var fimm ára gamall þegar hann var lýstur endurholdgaður trúarleiðtogi tíbetskra búddista. Það getur tekið nokkur ár að finna næsta Dalai Lama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×