Sport

Drykkju­læti trufluðu leik á Wimbledon

Siggeir Ævarsson skrifar
David Beckham lætur sig sjaldnast vanta á Wimbledon. Hér er hann ásamt Gareth Southgate, fyrrum þjálfara enska landsliðsins í knattspyrnu. Þeir sáust þó ekki með vín við hönd.
David Beckham lætur sig sjaldnast vanta á Wimbledon. Hér er hann ásamt Gareth Southgate, fyrrum þjálfara enska landsliðsins í knattspyrnu. Þeir sáust þó ekki með vín við hönd. Vísir/Getty

Wimbledon tennismótið er elsta tennismót í heimi og af mörgum talið það virðulegasta af öllum stórmótum. Þar er ekkert deilt um hvort leyfa eigi sölu á áfengi enda gott freyðivín ómissandi partur af upplifuninni að mæta á völlinn.

Áhugaverð uppákoma varð þó á mótinu á föstudaginn sem tengist áfengisneyslu en það væru ýkjur að segja að allt hafi ætlað um koll að keyra. 

Hin bandaríska Amanda Anisimova var í þann mund að slá uppgjöf þegar þögnin á vellinum var rofin af einhverjum í áhorfendastúkunni að opna freyðivínsflösku. Anisimova fipaðist og vallarþulurinn minnti fólk á að vinsamlegast vera ekki að opna freyðivínsflöskur þegar uppgjafir eiga sér stað. 

Lýsendum mótsins var greinilega skemmt yfir þessu atviki en Anisimova var auðsýnilega nokkuð pirruð en kláraði þó einvígið gegn Dalma Galfi með sigri. 

Aðvaranir vallarþularins dugðu þó greinilega skammt því síðar um daginn flaug korktappi inn á völlinn. Ekki er þó að sjá að nein umræða hafi skapast í kjölfarið um hvort banna eigi sölu áfengis á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×