Fótbolti

Fullt af Betum upp í stúku á EM í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir hefði séð sjálfan sig í mörgum eintökum ef hún hefði horft upp í stúku í gær.
Elísabet Gunnarsdóttir hefði séð sjálfan sig í mörgum eintökum ef hún hefði horft upp í stúku í gær. Getty/Nick Potts/@knattspyrnukonur

Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari belgíska landsliðsins, var með sérstaka íslenska stuðningssveit í stúkunni í leiknum á móti heimsmeisturum Spánar í Thun í gær.

Belgíska liðið jafnaði tvisvar sinnum á móti Spáni en varð á endanum að sætta sig við 6-2 tap.

Íslenska landsliðið er með aðsetur stutt frá Thun og íslensku stelpurnar spila tvo af leikjum sínum í borginni.

Einhverjir af þeim stuðningsmönnum íslenska liðsins sem voru mættir til Sviss til að horfa á íslenska landsliðið nýttu því tækifærið í gær til að fara á leik með Betu og belgíska landsliðinu.

Einn hópur stuðningsmanna vakti þó meiri athygli en aðrir því þær mættu allir með Betu-grímu á leikinn.

Það var því fullt af Betum upp í stúku í gær eins og kom fram á Instagram síðunni knattspyrnukonur sem er heimili hagsmunasamtaka íslenskra knattspyrnukvenna.

Við sáum engin andlit á bak við grímurnar af Betu en töggin benda til að þar hafi meðal annars verið á ferðinni Mist Rúnarsdóttir, Anna Þorsteinsdóttir, Lilja Dögg Valþórsdóttir, Fjóla Dröfn Friðriksdóttir og Valgerður Stella Kristjánsdóttir.

Við seljum það þó ekki dýrara en við keyptum það.

„Alltaf má Betum á sig bæta“ eins og stóð við þessa skemmtilegu mynd sem má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×