Sport

„Síðasti leggurinn var hel­víti þungur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Andrea Kolbeinsdóttir fagnaði sigri fimmta árið í röð í Laugavegshlaupinu.
Andrea Kolbeinsdóttir fagnaði sigri fimmta árið í röð í Laugavegshlaupinu. Vísir

Andrea Kolbeinsdóttir fagnaði sigri í kvennaflokki í Laugavegshlaupinu í dag, fimmta árið í röð. Hún vildi gera betur í hlaupinu og kveðst óviss hvort hún taki þátt að ári.

„Ég er bara mjög sátt, eða svona. Mér líður vel en ég náði ekki tímanum sem ég stefndi á. En ég er samt bara sátt við útfærsluna og hvernig fílingurinn var,“ segir Andrea eftir hlaupið.

Hún hljóp á 4:29:33 klukkutímum. Þetta er fimmta árið í röð sem hún kemur fyrst í mark. Aðstæður voru góðar og bætir það aðeins á svekkelsi Andreu varðandi sinn tíma í dag.

„Það voru fullkomnar aðstæður, það lætur mann vera aðeins meira pirraðan að hafa ekki getað hlaupið hraðar,“ segir Andrea og bætir við:

„Ég setti ekki mega áherslu á Laugaveginn í ár. Ég er búin að vera að keppa á götunni og á brautinni. Ég fann að mig vantaði svolítið löngu túrana, ég var sátt hvað lungun voru góð en síðasti leggurinn var helvíti þungur í fæturna. Ég hafði ekki sett alveg nægilega mikinn fókus á löng fjallahlaup.“

Óvíst er með þátttöku hennar að ári þar sem hún leitar nýrra áskorana eftir enn einn sigurinn í Laugaveginum.

„Þetta var fimmta árið í röð og ég finn að mig vantar eitthvað smá nýtt. Ég var ekki mjög peppuð í síðustu viku, ef ég á að vera hreinskilin. Maður peppast alltaf í Laugavegsvikunni, menn tala ekki um annað í heila viku, svo maður peppaðist alveg vel fyrir lok, sem betur fer. En ég er ekki viss með næsta ár,“ segir Andrea sem hefur nú undirbúning fyrir HM í fjallahlaupum og kveðst ætla að æfa fjallahlaupin betur á næstu dögum og vikum.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í heild í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×