Fótbolti

Fer­tugur Cazorla er hvergi nærri hættur

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Santi Cazorla ætlar að taka slaginn með Oviedo í La Liga.
Santi Cazorla ætlar að taka slaginn með Oviedo í La Liga. Manuel Serrano Arce/Getty

Fyrrum leikmaður Arsenal, Santi Cazorla, hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við félag sitt Real Oviedo. Félagið komst upp í spænsku úrvalsdeildina í gegnum umspilið á síðasta tímabili.

Cazorla er orðinn fertugur en þetta verður þriðja tímabilið hans fyrir Oviedo. Hann skoraði í úrslitum umspilsins gegn Mirandes.

Cazorla spilaði með Oviedo í yngri flokkunum en þurfti að fara frá félaginu áður en hann náði að spila fyrsta leik með meistaraflokki, vegna fjárhagsvandræða hjá félaginu.

Árið 2012 var Cazorla einn af fjölmörgum sem keyptu hluta í félaginu en þá var Oviedo á barmi gjaldþrots.

Það er í raun ótrúlegt að Cazorla skuli enn vera að spila á þessum aldri því árið 2016 meiddist hann illa og þurfti ellefu aðgerðir. Hann fékk drep í fótinn eftir eitt af aðgerðunum og óttast var að hann gæti aldrei gengið almennilega aftur.

Cazorla er gríðarlega vinsæll í heimalandinu en frá því hann gekk til liðs við Oviedo hefur hann verið á lægstu mögulegu launum sem vinnumálaeftirlit Spánar leyfir. Hann sagðist vilja spila frítt fyrir félagið en það er ekki leyfilegt í lögum Spánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×