Lífið

„Yndis­legir vinir gáfu okkur saman í plötu­búð“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Glæsihjónin Rebekka Ellen og Logi Már giftu sig á dögunum í Tólf tónum.
Glæsihjónin Rebekka Ellen og Logi Már giftu sig á dögunum í Tólf tónum. Aðsend

„Logi fékk þá hugmynd að halda brúðkaupið okkar á bar og ég var nú ekki alveg að kaupa þá hugmynd sagði eiginlega bara nei, sem er fyndið því athöfnin endaði á því að vera í plötubúð sem er jú líka bar,“ segir hin nýgifta Rebekka Ellen Daðadóttir um óhefðbundið og einstaklega fallegt brúðkaup sitt.

Rebekka Ellen, nýútskrifaður lögfræðingur, giftist ástinni minni Loga Má myndlistarmanni á dögunum við alvöru miðbæjarbrúðkaup. Hún ræddi við blaðamann um stóra daginn.

Rebekka og Logi Már eru ansi töff hjón.Aðsend

Hvenær og hvernig trúlofuðust þið?

Við trúlofuðumst 01.03.24 í yndislegu íbúðinni okkar. Logi plataði mig út í happy hour en á meðan voru vinir og fjölskylda að græja kerti, blóm og tónlist heima. 

Þetta kom mér svakalega á óvart enda vorum við á leið í „matarboð“ hjá vinum. Logi var síðan búin að fá alla okkar nánustu á Kramber í skál. Enduðum svo kvöldið Hósíló. Iconic kvöld.
Rebekka og Logi trúlofuðust snemma árs í fyrra við mjög rómó og skemmtilega stund.Aðsend

Hvað voruð þið búin að vera lengi að skipuleggja stóra daginn?

Vorum alveg frá trúlofun að ræða alls konar hugmyndir en bókuðum Ásmundarsal í ágúst 2024 og þá fór allt að rúlla! 

Okkur fannst samt við samt bara geta gert ákveðið mikið á meðan það var ennþá langt í þetta svo þetta kom allt í smá bylgju þegar dagurinn nálgaðist.

Brúðkaupið var haldið í Ásmundarsal.Aðsend

Hvernig var brúðkaupsdagurinn?

Smá kaótískur, fallegur og alveg eins og hann átti að vera. Ég hóf daginn á að fara í greiðslu til Sonju vinkonu á Reykjavik Hair. Svo fór ég heim og fékk gordjöss förðun eftir Elínu Stefáns.

Pabbi kom svo til mín þar sm við fórum aðeins yfir málin og drukkum búbblur. Logi átti víst ekki eins afslappaðan dag að hans eigin sögn. 

Yndislegu vinir okkar Ægir Örn og Friðrik Þór gáfu okkur saman í plötubúðinni 12 Tónum á Skólavörðustíg þar sem við vorum umkringd fólkinu okkar.

Svo var haldið upp í Ásmundarsal þar sem veislan fór fram. Við skemmtum okkur ótrúlega vel og borðuðum sjúklega góðan mat sem Siggi a.k.a. Burger jesus og góðvinur okkar fjölskyldunnar eldaði fyrir okkur.

Voruð þið sammála í skipulaginu?

Vorum alls ekki sammála alltaf en vorum bæði ótrúlega sátt með niðurstöðuna. Þetta eins og margt annað er bara samtal.

Hjónin voru í skýjunum með allt.Aðsend

Hvaðan sóttuð þið innblástur?

Frá upphafi vildum við lítið brúðkaup, afslappaða stemningu og halda gott partý. Hugmyndin var alltaf sú að við værum að gifta okkur og svo halda stórt matarboð. Þá var bara spurning hvar og hvernig við ætluðum að útfæra það. Mig langaði fyrst að halda sveitabrúðkaup.

Hins vegar þegar við Logi ræddum þetta betur þá vorum við bæði sammála um að þetta ætti að vera í bænum. Logi fékk þá hugmynd að halda brúðkaupið okkar á bar og ég var nú ekki alveg að kaupa þá hugmynd og eiginlega sagði ég bara nei, sem er fyndið því athöfnin endaði á því að vera í plötubúð sem er jú líka bar.

Rómans í Tólf tónum.Aðsend

Fyrir staðsetningu á veislunni þá fengum við þá flugu í hausinn að halda hana í Ásmundarsal og sendum fyrirspurn þess efnis. Eina dagsetningin sem var laus var 21. júní þannig við slóum bara til. 

Þeir sem hafa séð rýmið í Ásmundarsal vita að það er gordjöss og alls ekki erfitt að sækja innblástur þaðan. Skreytingarnar voru einfaldar. Blóm, kerti, reykelsi og næs tónlist. Less is more þegar maður er að halda veislu í Ásmundarsal.

Salurinn í Ásmundarsal stendur fyrir sínu.Aðsend

Hvað stendur upp úr?

Samverustundin með fólkinu okkar. Erum svo þakklát þeim og hefðum ekki viljað upplifa daginn án þeirra. Svo kemur maturinn hans Sigga sterkt á eftir. Vín úrvalið var líka uppá tíu og þeir vita sem eiga inni þakkir frá okkur!

Vín og matur var upp á tíu hjá hjónunum.Aðsend

Sáu einhverjir um veislustjórn og voru skemmtiatriði?

Það voru engir veislustjórar en við vorum búin að blikka nokkra vini sem eru vön að stýra fólkinu ef þess þyrfti. 

Við fengum svo tvo góða vini til að koma og taka nokkur vel valin lög en það voru Hrafn Björgvinsson (Krummi í Mínus) og Þorsteinn Einarsson (Steini í Hjálmum). 

Svo þegar leið á kvöldið þá voru hljómsveitarmeðlimir Loga í BOY, Hrafnkell Már og Leó Ingi komnir á mækinn lokuðu geggjuðu kvöldi.

Var eitthvað sem kom ykkur á óvart?

Hvað maður þarf að hugsa út í mörg smáatriði og kannski smá hvað svona undirbúningur er „rómantíseraður“, mikið af þessu er bara að panta dúka og glös. 

Að græja fötin, hringana og allt sem tengdist því kom skemmtilega á óvart hjá okkur báðum, extra ástæða til að hitta vini og vandamenn og fá sér smá vín með’í.

Hvað voru margir gestir?

Um það bil fjörutíu en salurinn bauð ekki uppá fleiri rassa. Þeir sem þekkja til Ásmundarsals vita að hann er ekki mjög stór. Það var mjög erfitt að bjóða ekki öllum sem við vildum en það virtust allir skilningsríkir gagnvart því.

Í brúðkaupinu voru fjörutíu gestir og einn hundur.Aðsend

Hvernig gekk að velja kjólinn? Hvað fannst þér vega mest í því ferli?

Ég var búin að skoða og fá innblástur af Pinterest en fann einhvern veginn aldrei akkúrat það sem mig langaði í. Ég var búin að fylgjast með Thelmu Gunnarsdóttur fatahönnuð í smástund en allt sem hún gerir er óraunverulega fallegt. 

Ég var ekki lengi að heyra í henni og spyrja hvort hún hefði áhuga á að sauma brúðarkjólinn. Hún var til í þetta verkefni með mér og í mars 2023 fór hugmyndaflæðið af stað. Við fórum algjörlega frá A yfir í Ö en vorum báðar í skýjunum með niðurstöðuna. 

Rebekka rokkaði íslenska hönnun frá toppi til táar.Aðsend

Við vildum báðar eitthvað vintage lúkk og fatnað sem væri hægt að nota aftur og aftur. Eftir marga hittinga og breytingar endaði Thelma á því að hanna og sauma fallegt pils og síðerma topp við. Hún gerði einnig slörið og flúffið sem ég var með í athöfninni. 

Það besta í heimi við þetta ferli var hvað Thelma hafði mikinn metnað í því að láta mér líða sem best í dressinu. 

Hún er algjört hæfileikabúnt og yndisleg. Að lokum fékk ég brúðkaups skóna frá Kalda Shoes. Íslensk hönnun for the win!

Smáatriðin upp á tíu hjá Rebekku sem er mikil tískudrottning.Aðsend

Ertu með eitthvað gullið ráð fyrir verðandi hjón sem eru að skipuleggja brúðkaup?

Takið ykkur góðan tíma í að skipuleggja ef þið getið. Passa samt að njóta aðdragandans og ekki setja of miklu pressu á að allt eigi að vera fullkomið. 

Það eru allar líkur á því að eitthvað breytist eða fari úrskeiðis og það er í lagi.

Ætlið þið í brúðkaupsferð?

Erum nýkomin heim frá Skotlandi. Leigðum okkur bíl, skelltum okkur í regn jakka og keyrðum um hálendin. Þetta var æðisleg ferð. Sáum fallega náttúru, spiluðum milljón yatsy leiki og drukkum pintur. 10/10 mæli með.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.