Skoðun

Hví borgar út­gerðin – ekki malarnáman?

Guðmundur Edgarsson skrifar

Reglulega heyrist: Fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar. Því þarf útgerðin að greiða sérstakt veiðigjald. Sanngjarnt og hóflegt. En er það svo? Og af hverju virðist þetta „sanngirni“-tal alltaf beinast að úgerðinni einni saman? Fleiri atvinnugreinar en sjávarútvegurinn nota margvíslegar auðlindir sem kalla má sameign þjóðarinnar, t.d. bændur og bjórframleiðendur.

Horfum á staðreyndir: Útgerð sem kaupir kvóta borgar oft gríðarlegar upphæðir fyrir réttinn til að veiða ákveðið magn af fiski. Þessi kvóti er keyptur á markaði, framseljanlegur, veðsetjanlegur og erfanlegur. Eignarrétturinn er því alveg skýr, þótt hann sé kallaður „leyfi“ í lagatexta. Samt þarf sú sama útgerð að greiða sérstakt veiðigjald árlega, sem ríkið innheimtir „fyrir hönd þjóðarinnar“. Fyrir hvað? Fyrir fisk sem útgerðin hefur þegar greitt fyrir!

Á að skattleggja allt landið?

En tökum aðrar auðlindir til samanburðar. Segjum að maður kaupi land með góðri malarnámu. Hann fær leyfi, fylgir reglum, vinnur möl og selur hana í vegagerð. Er hann rukkaður um sérstakt „malarvinnslugjald“ af ríkinu? Nei. Hann greiðir tekjuskatt af hagnaðinum, eins og aðrir, og má svo eiga afraksturinn í friði.

Því er von að spurt sé: Er ekki verið að mismuna eftir atvinnugreinum? Ef við segjum að fiskur sé „sameign þjóðarinnar“ og notum það sem rök fyrir veiðigjaldi, ætti hið sama ekki að gilda um möl, grjót, bláber, jarðhita, hey og hesta – og hverja þá náttúruafurð sem hægt er að vinna verðmæti úr? Sé stemning fyrir slíkri allsherjarskattlagningu, skulum við átta okkur á einu. Hún mun fela í sér auknar álögur á almenning og hærra vöruverðs auk þess sem hvati til fjárfestinga og verðmætasköpunar mun minnka til muna. Hagkerfið mun skreppa saman og allir tapa.

Höfundur er kennari




Skoðun

Sjá meira


×