Erlent

Að minnsta kosti 25 börn seld frá Indónesíu til Singapúr

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mansal með börn er viðvarandi vandamál í Indónesíu. Börnin kosta mismikið en verðið veltur meðal annars á útliti.
Mansal með börn er viðvarandi vandamál í Indónesíu. Börnin kosta mismikið en verðið veltur meðal annars á útliti. Getty

Lögregluyfirvöld í Indónesíu hafa komið upp um alþjóðlegan glæpahring sem þau segja hafa selt að minnsta kosti 25 börn til Singapúr frá árinu 2023.

Þrettán voru handteknir í vikunni í tengslum við málið og sex börnum bjargað.

Öll voru um árs gömul.

Glæpirnir voru vel skipulagðir en ákveðnir meðlimir höfðu það hlutverk að hafa uppi á foreldrum sem vildu ekki barn sem var komið undir, aðrir sáu um börnin og enn aðrir um að falsa skilríki og önnur nauðsynleg gögn.

Að sögn yfirvalda voru sum barnanna „frátekin“ fyrir ákveðna foreldra á meðan þau voru enn í móðurkviði. Eftir fæðingu var þeim komið fyrir í umsjá fóstra sem sáu um þau í tvo til þrjá mánuði en þá voru þau send til Jakarta og svo áfram til Pontianak, þar sem vegabréf og önnur gögn voru útbúin fyrir þau.

Börnin voru síðan seld til Singapúr fyrir um það bil hundrað þúsund krónur.

Lögregluyfirvöld segja það nú efst á forgangslistanum að hafa uppi á einstaklingunum sem keyptu börnin; að minnsta kosti þrettán stúlkur og tólf drengi. Þau hafa óskað eftir aðstoð Interpol og yfirvalda í Singapúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×