Íslenski boltinn

Birnir Snær genginn til liðs við KA

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Birnir Snær kemur til með að hjálpa KA í fallbaráttunni.
Birnir Snær kemur til með að hjálpa KA í fallbaráttunni. KA

Birnir Snær Ingason er genginn til liðs við KA í Bestu deild karla, hann kemur til liðsins frá Halmstad í Svíþjóð.

KA tilkynnti félagaskiptin á miðlum félagsins í morgun.

Birnir hefur verið leikmaður Halmstad síðustu tvö árin tæplega. Hann hefur lítið fengið að spila á tímabilinu og verið orðaður við endurkomu til Íslands í allt sumar. Talið var að lið í efri hluti deildarinnar myndu klófesta hann en sú varð ekki raunin.

Birnir kemur til með að hjálpa KA í fallbaráttunni. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar og hefur skorað fæst mörk allra í sumar.

„Það eru krefjandi en á sama tíma spennandi verkefni framundan hjá liðinu en auk baráttunnar í Bestudeildinni mætir KA danska liðinu Silkeborg í Sambandsdeildinni 23. júní ytra og 31. júlí á heimavelli. Við bjóðum Birni hjartanlega velkominn í KA og hlökkum til að sjá hann í gulu og bláu treyjunni“ segir meðal annars í tilkynningunni á heimasíðu KA

Spennandi verður að sjá hvernig Birnir smellur inn í liðið, hann er sóknarmaður sem hefur yfirleitt spilað á vinstri vængnum en þá stöðu skipar Hallgrímur Mar Steingrímsson, besti leikmaður KA.

Birnir Snær spilaði síðast fyrir Víking hér á landi áður en hann fór til Svíþjóðar. Áður hafði hann leikið með HK, Val og Fjölni.Vísir/Hulda Margrét



Fleiri fréttir

Sjá meira


×