Enski boltinn

Madueke skrifar undir hjá Arsenal

Valur Páll Eiríksson skrifar
Noni Madueke skrifaði undir hjá Arsenal í dag.
Noni Madueke skrifaði undir hjá Arsenal í dag. Mynd/Arsenal

Arsenal hefur tilkynnt um kaup á enska kantmanninum Noni Madueke frá Chelsea fyrir 50 milljónir punda.

Skiptin hafa legið í loftinu um hríð en Madueke er fjórði leikmaðurinn sem Skytturnar festa kaup á í sumar. Hann skrifar undir langtímasamning og færir sig um set innan Lundúna.

Madueke er frá Lundúnum en hann spilaði fyrir bæðði Crystal Palace og Tottenham sem unglingur. Þaðan fór hann til PSV Eindhoven í Hollandi og stimplaði sig inn í aðalliðsbolta.

Madueke samdi við Chelsea snemmárs 2023 en hefur nú fært sig til Arsenal eftir tvö og hálft ár hjá þeim bláklæddu.

Auk Madueke hafa miðjumennirnir Christian Nörgaard og Martín Zubimendi samið við Arsenal í sumar, líkt og markvörðurinn Kepa Arrizabalaga.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri liðsins, hefur unnið að því að breikka hóp Arsenal eftir strembinn lokakafla tímabilsins í fyrra. Arsenal gott sem skráði sig út úr titilbaráttunni við Liverpool í apríl en átti þar kafla þar sem aðeins einn leikur af sex vannst í deild, en liðið vann á sama kafla sterka sigra á Real Madrid í Meistaradeildinni.

Félagið er sagt í framherjaleit og er sterklega orðað við Viktor Gyökeres, framherja Sporting Lissabon, og þá er talið tímaspursmál hvenær varnarmaðurinn Christian Mosquera verður keyptur frá Valencia.

Arsenal hafnaði í öðru sæti ensku úrvalsdieldarinnar í fyrra og komst í undanúrslit bæði enska deildabikarsins og Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×