Innlent

Grátrana vappaði um í Gunnars­holti

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hún virtist spök.
Hún virtist spök. Eyjólfur Matthíasson

Grátrana sást að spóka sig í Gunnarsholti í dag. Grátrana er sjaldgæfur flækingsfugl á Íslandi og sérstaklega á Suðurlandi.

Grátrana er, eins og nafnið gefur til kynna, fugl af trönuætt sem er háfætt, grá á litinn og með svartan og hvítan háls. Þær eru stórvaxnar og geta orðið allt að 130 cm langar með vænghaf á bilinu 180 til 240 cm. Þær verpa á norðurhveli jarðar í Skandinavíu og Rússlandi en verja vetrunum í Afríku.

Gunnarsholt er á Rangárvöllum skammt frá Hellu.Map.is

Grátrönur hafa verið reglulegir flækingar hér á landi og hafa heimsóknir þeirra færst í aukana á undanförnum áratugum. Þær hafa skotið upp kollinum víða um land en fyrst var varp grátrönu á Íslandi staðfest á Austurlandi sumarið 2012. Þá sást til pars með einn unga síðsumars en ekki er vitað um afdrif ungangs, samkvæmt umfjöllun Vísindavefsins.

„Haustið 2019 sást til fjögurra fullorðinna fugla sem væntanlega voru að undirbúa flug til vetrarstöðva sem líklegast eru á Spáni eða norðurhluta Afríku. Nokkrum árum áður sást til unga á Héraði og haustið 2018 náðst mynd af grátrönupari með tvo unga þannig að hugsanlega gæti þessi glæsilegi fugl fest rætur hér,“ segir þar jafnframt.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir af þessum tigna en ótíða gesti.

Glæsileg er hún.Eyjólfur Matthíasson
Grátranan er ekki tíður gestur á suðurhluta landsins.Eyjólfur Matthíasson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×