Körfubolti

Strákarnir tryggðu sér úr­slita­leik um sæti í A-deild EM með stór­sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Fannar Ingólfsson var frábær í dag. Hann skoraði tuttugu stig í fyrri hálfleiknum eða jafnmikið og samanlagt í þremur leikjum á undan þessum.
Kristján Fannar Ingólfsson var frábær í dag. Hann skoraði tuttugu stig í fyrri hálfleiknum eða jafnmikið og samanlagt í þremur leikjum á undan þessum. FIBA.Basketball

Íslenska tuttugu ára landslið karla í körfubolta sýndi sínar bestu hliðar þegar liðið tryggði sér sæti í hreinum úrslitaleik um áframhaldandi veru í A-deild Evrópumótsins.

Íslensku strákarnir urðu að vinna Úkraínu til að fá að leik um þrettánda sætið. Liðin sem enda í sætum fjórtán til sextán falla niður í B-deild.

Íslenska liðið fór á kostum í dag og vann leikinn með 21 stigs mun, 88-67. Keppnin fer fram í Heraklion á Krít.

Kristján Fannar Ingólfsson átti sinn besta leik á mótinu en hann skoraði 20 stig í fyrri hálfleiknum og 27 stig alls. Hann var einnig með fimm fráköst og fimm stolna bolta.

Miðherjinn Friðrik Leó Curtis var að venju öflugur með 22 stig og 8 fráköst og leikstjórnandinn Hilmir Arnarsson skoraði 15 stig eins og Lars Erik Bragason.

Kristján Fannar og Hilmir hittu báðir úr þremur af fjórum þriggja stiga skotum sínum í skotsýningu liðins í fyrri hálfleiknum þegar íslenska liðið var með fimmtíu prósent þriggja stiga nýtingu.

Strákarnir gáfu tóninn frá fyrstu mínútu en þeir unnu fyrsta leikhlutann með 23 stiga mun, 29-6. Þeir voru síðan komnir 31 stigi yfir í hálfleik, 58-27. Seinni hálfleikurinn var nánast formsatriði en Úkraínumenn náðu aðeins að laga stöðuna.

Liðið mætir sigurvegaranum úr leik Þýskalands og Finnlands en Úkraínumenn mæta tapliðinu í baráttunni um að sleppa við síðasta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×